Gerendur kynferðisofbeldis

Hver brýtur á barni?

Aðilar sem brjóta kynferðislega gegn börnum geta verið einstaklingar af báðum kynjum og á öllum aldri.

 • Ofbeldismenn eru að stærstum hluta karlar (80%) og meðalaldur þeirra um 40 ára (Anna Kristín Newton og Þórarinn Viðar Hjaltason, 2011).
 • Staðalímynd ofbeldismanna í kynferðisbrotamálum hefur verið að mesta hættan stafi af ókunnugum. Veruleikinn er sá að á bilinu 60%-70% þeirra sem beita börn kynferðislegu ofbeldi eru tengdir þeim fjölskylduböndum eða eru vinir og kunningjar þeirra (Abel og Harlow, 2001).
 • Á Íslandi er um 5-10% ungra gerenda (<18 ára) kvenkyns (Sigurðsson, Guðjónsson, Ásgeirsdóttir og Sigfúsdóttir, 2010).
  Erlendar rannsóknir hafa sýnt að um 30-50% kynferðisbrota gegn börnum eru framin af einstaklingum yngri en 18 ára (Barbaree og Marshall, 2008).
 • 56% af þeim karlkyns ofbeldismönnum og 87% af þeim kvenkyns ofbeldismönnum sem höfðu beitt þau börn sem leituðu til Barnahúss á árunum 2006-2011 kynferðisofbeldi voru yngri en 15 ára (Ólöf Ásta Farestveit og Þorbjörg Sveinsdóttir, 2013).

Þegar rætt er um unga aðila er talað um börn og ungmenni sem sýna af sér óæskilega kynferðislega hegðun. Áhersla er lögð á óæskilegu hegðunina, skortur er á innsæi og samkennd þar sem þau gera sér ekki grein fyrir afleiðingum hennar.

Með auknu aðgengi að tölvum og snjallsímum reynist auðvelt að nálgast klámefni á veraldarvefnum. Börn hafa lítinn þroska til að átta sig á áhrifum og afleiðingum slíks efnis.

 • Klám getur haft áhrif á viðhorf unglinga, sérstaklega hvað varðar kynferðislegar venjur og klám áhorf, og getur haft veruleg áhrif á kynhegðun þeirra.

Í rannsókn á ungu fólki sem nota netið daglega viðurkenna:

 • 1163 (77,9%) einstaklingar að hafa horft á klám.
 • 93 (8%) af þeim hafa horft á klám daglega.
 • Strákar 686 (59%) sem hafa aðgang að klámsíðum notfæra sér slíkt sem örvun.
 • 255 (21,9%) aðilar skilgreina notkun sem vana.
 • 116 (10%) greina frá því að klámáhorf dragi úr kynferðislegum áhuga á að tengjast öðrum aðila.
 • 106 (9,1%) aðilar telja sig vera orðin háð efninu, einhverskonar fíkn (Damiano Pizzol, Alessandro Bertoldo og Carlo Foresta, 2015).

Ef barn eða unglingur sýnir óæskilega kynferðishegðun

Ef þú hefur áhyggjur af óæskilegri kynferðislegri hegðun barns eða unglings og óviss um hvað sé best að gera, hafðu samband við Barnaverndarnefnd, Barnahús eða getur fengið nánari upplýsingar hjá radgjof@barnaheill.is

Hér er bæklingur frá Barnahúsi um eðlilega eða óeðlilega kynferðislega hegðun barna.

Ef þú hefur áhyggjur af þinni hegðun

Úrræði fyrir gerendur (kynferðisafbrotamenn/konur)
Taktu skrefið - taktuskrefid.is  - taktuskrefid@taktuskrefid.is

Ef þú ert að misnota barn kynferðislega – eða leggja drög að því að búa barn undir misnotkun, þá hvetjum við þig til að endurskoða það og leita þér aðstoðar. Með því að beita barn kynferðisofbeldi ertu að skaða æsku þess og heilsu. Það er hægt að fá hjálp. Hér á landi eru sálfræðingar sem bjóða uppá þjónustu varðandi meðferð, greiningu og áhættumat á einstaklingum sem framið hafa kynferðisbrot. Nánari upplýsingar hjá radgjof@barnaheill.is

Aðstoð til geranda felst í grófum dráttum að sálfræðingur vinnur með honum/henni og byrjar á því að kortleggja vanda þeirra. Farið er í gegnum ákveðna þætti svo sem: heimilislíf, skólagöngu, brotin sem voru framin, þroskasögu, hvatvísi, reiði, kynferðislega vitneskju sem og viðhorf og áhuga á kynlífi, samkennd og aðra þætti sem sýnt hefur verið fram á að geta haft áhrif á framvindu kynferðisofbeldis. Þaðan er svo hægt að skipuleggja meðferðina sem felst í því að hafa áhrif á þá þætti sem eru í ólagi (draga þá úr áhættuþáttum) og tengjast kynferðisofbeldi. Einstaklingi í meðferð eru kenndar aðferðir við að þekkja sína eigin áhættuþætti og kenndar leiðir til að bregðast við þeim með það markmið að koma í veg fyrir að kynferðisofbeldi eigi sér aftur stað.

Viljum við minna á mikilvægi þess að leita sér aðstoðar, fyrr heldur en seinna. Sama hversu erfitt það kann að vera að leita aðstoðar fyrir sjálft sig eða jafnvel barn sitt sem hefur gerst brotleg/ur við önnur börn kynferðislega er það enn erfiðara ef ekki er tekið á vandanum. Vandinn og skömmin sem honum fylgir getur haldið áfram að þróast og er einstaklingurinn þá í meiri hættu á að skaða aðra sem og sjálfan sig og getur jafnvel endað með fangelsisvist og samfélagslegri útskúfun.

Hægt er að fá mögulega aðstoð við greiðslu á fagaðstoð hjá ráðgjöfum í gegnum félagsþjónustuna, en það er metið hverju sinni.

Ef þú ert í vafa, hringdu í síma 5535900 eða sendu tölvupóst á radgjofl@barnaheill.is. Þú þarft ekki að segja til nafns ef þú vilt bara leita eftir upplýsingum. Þú getur fengið hjálp!!