Blær fer í bólusetningnu

Eins og fjöldi barna fer Blær í bólusetningu gegn Covid-19. Börn geta fundið fyrir óöryggi í aðstæðum sem þau þekkja ekki því þau vita ekki hvað er ætlast til af þeim í nýju umhverfi. Því er mikilvægt að undirbúa börn með því að greina þeim frá því að þau séu að fara í sprautu og það sé yfirstíganlegt en ekki ógnvekjandi. Gott getur verið að segja börnum stutta félagsfærnisögu sem er lýsandi fyrir aðstæðurnar sem þau eru að fara að takast á við og fá um leið þau skilaboð að það verði allt í lagi.
 
Blær hefur hjálpað, hughreyst og frætt fjölmörg börn um allt land um mikilvægi þess að sýna umhyggju, virðingu, umburðarlyndi og hugrekki í samskiptum við aðra í gegnum Vináttu – forvarnaverkefni Barnaheilla gegn einelti. Nú vill Blær leiða börn í gegnum það ferli að fá sprautu gegn Covid-19. Tilvalið er fyrir foreldra og/eða aðra forsjáraðila að segja börnunum eftirfarandi sögu sem endar svo á spurningum sem geta vakið upp skemmtilegar umræður. Svo minnir Blær auðvitað á að halda áfram að þvo hendurnar eins og má heyra í laginu Blær þvær sér um hendur sem finna má á Spotify.
 
Félagsfærnisaga: Blær fær sprautu
Mörg börn eru í röð með foreldrum sínum og bíða eftir að fá sprautu gegn Covid-19. Biðin er ekki löng og þegar Blær hefur sagt nafnið sitt fær Blær sér sæti. Hjúkrunarfræðingur biður Blæ um að hafa aðra höndina alveg kyrra og sprautar síðan í handlegginn á Blæ. Blær finnur bara pínulítinn sting og fær svo plástur. Þegar Blær hefur setið í smá stund stendur Blær upp og fer aftur út að leika við vini sína. Blæ finnst gaman að leika sér bæði inni og úti.
 
Hvaða leikur finnst þér skemmtilegastur?
Hvað finnst þér skemmtilegast að gera?
Hvað getur þú gert ef þér líður illa?
Hvað getur þú gert ef þú sérð að öðrum líður illa?
Hvernig getur Blær bangsi hjálpað?
Nánari upplýsingar um Vináttu má finna hér (slóð á vefsíðuna)