Hvað kemur fram í Barnasáttmálanum?

Megin inntak Barnasáttmálans

BarnasáttmálinnMegin inntak Barnasáttmálans er að tryggja börnum vernd gegn alls kyns ofbeldi, veita þeim tækifæri og áhrifamátt. 

Barnasáttmálinn er alþjóðleg viðurkenning á því að börn þarfnist sérstakrar verndar umfram fullorðna, þeim séu tryggð full mannréttindi og eigi rétt á að alast upp við öryggi og í friði óháð búsetu, kynferði, kynþætti, trú eða félagslegum aðstæðum.

Sáttmálinn fjallar ítarlega um rétt barna, meðal annars til menntunar og heilbrigðis, rétt þeirra sem einstaklinga og til aðstæðna sem leyfa þeim að þroskast andlega, líkamlega og félagslega þar sem þau eru vernduð gegn vanrækslu og grimmd.

Aðildarríkjum sáttmálans er gert að stuðla að sérstakri þjónustu, menntun og aðhlynningu barna sem búa við fötlun sem og að auka skilning á aðstæðum þeirra.

Samningurinn leggur áherslu á rétt barna til friðhelgi fjölskyldu- og einkalífs, tjáningarfrelsis sem og frelsis til skoðana og trúar. Þá eru ákvæði gegn því að börn fái að vinna fyrir ákveðinn lágmarksaldur og að þau fái ekki að taka þátt í störfum sem leggi heilsu þeirra eða menntun í hættu. Börnum sé einnig forðað frá aðstæðum sem leiði til mismununar og séu alin upp við skilning, umburðarlyndi, vináttu og frið.

Auk ítarlegs inngangs er sáttmálinn í þremur hlutum og inniheldur 54 greinar.

Í inngangi Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna er farið yfir þau grunngildi sem liggja að baki sáttmálanum og meðal annars vísað til Mannréttindayfirlýsingar Sameinuðu þjóðanna frá 1948 og annarra mannréttindasamninga.

Efnisreglurnar

Efnisreglur Barnasáttmálans er að finna í 1. til 41. gr. sáttmálans. Þar er fjallað um ýmis mikilvæg réttindi barna. Í grófum dráttum má skipta réttindum barna í þrjá flokka; vernd, umönnun og þátttöku.

  • Vernd
    Barnasáttmálinn kveður á um vernd tiltekinna grundvallarmannréttinda barna, svo sem réttinn til lífs, friðhelgi fjölskyldu- og einkalífs, félaga-, skoðana-, tjáningar- og trúfrelsis.
  • Umönnun
    Barnasáttmálinn leggur þær skyldur á aðildarríkin að grípa til aðgerða til að tryggja velferð barna, m.a. á sviði mennta-, heilbrigðis- og félagsmála.
  • Þátttaka
    Barnasáttmálinn tryggir börnum rétt til þess að láta í ljós skoðanir sínar á öllum málum sem varða þau með einum eða öðrum hætti. Taka ber tillit til skoðana barna í samræmi við aldur þeirra og þroska.

Logo BarnasáttmálansGrundvallareglurnar fjórar

Þó að öll réttindi Barnasáttmálans séu mikilvæg er almennt gengið út frá því að fjögur ákvæði feli í sér svokallaðar grundvallarreglur, sem tengja saman ólík ákvæði hans.. Grundvallarreglurnar fjórar ganga sem rauður þráður í gegnum allan sáttmálann og er því sérstaklega mikilvægt að hafa þær í huga þegar önnur ákvæði hans eru túlkuð, ekki síst ef ákvæði sáttmálans vegast á.

2. grein Jafnræði – bann við mismunun
Öll börn skulu njóta réttinda Barnasáttmálans án tillits til kynþáttar, litarháttar, kynferðis, tungu, trúar, stjórnmálaskoðana, ætternis, fötlunar, félagslegrar stöðu eða annarra aðstæðna þeirra eða stöðu eða athafna foreldra þeirra.

3. grein Það sem barninu er fyrir bestu
Allar ákvarðanir eða ráðstafanir yfirvalda er varða börn skulu byggðar á því sem er börnum fyrir bestu. Setja á lög og reglur sem tryggja börnum þá vernd og umönnun sem velferð þeirra krefst. Aðildarríki eiga að sjá til þess að stofnanir og þjónusta sem annast börn uppfylli reglur sem stjórnvöld hafa sett, sérstaklega um öryggi, heilsuvernd, fjölda og hæfni starfsmanna og yfirumsjón.

6. grein Réttur til lífs og þroska
Sérhvert barn á meðfæddan rétt til lífs og skulu aðildarríkin tryggja að það megi lifa og þroskast.

12. grein Réttur til að láta skoðanir sínar í ljós og til að hafa áhrif
Börn eiga rétt á að láta í ljós skoðanir sínar í öllum málum er varða þau og að tekið sé réttmætt tillit til skoðana þeirra í samræmi við aldur þeirra og þroska. Börnum skal veitt tækifæri til að tjá sig um eigin málefni við málsmeðferð fyrir dómi eða stjórnvaldi.

Eftirlit með framfylgd Barnasáttmálans

Greinar 42–45 fjalla um það hvernig samningnum skuli framfylgt. Sérstök nefnd um réttindi barnsins (Barnaréttarnefndin) hefur það hlutverk að fylgjast með því að aðildarríki sáttmálans hafi réttilega komið ákvæðum Barnasáttmálans í framkvæmd, sbr. 43. gr. sáttmálans. Í nefndinni eiga tíu sérfræðingar sæti, nefndarmenn eru valdir af aðildarríkjunum og eru þeir kjörnir leynilegri kosningu.

Hverju aðildarríki ber að skila reglulega inn skýrslu um framkvæmd sáttmálans til Barnaréttarnefndarinnar samkvæmt 44. gr. barnasáttmálans. Aðildarríki skilar fyrst inn frumskýrslu til nefndarinnar tveimur árum eftir fullgildingu sáttmálans og síðan reglubundnum skýrslum á fimm ára fresti.