Neyðaraðstoð erlendis

Flóttabörn í ÍrakBarnaheill – Save the Children á Íslandi hafa á undanförnum árum stutt neyðaraðstoð alþjóðasamtakanna á stríðshrjáðum svæðum í Mið-Austurlöndum og Afríku með fjárframlögum. 

Víðtækasta aðstoðin hefur verið í gegnum svokallaðan Svæðasjóð Save the Children
vegna stríðsástandsins í Sýrlandi sem settur var á stofn árið 2014. Verkefni sem studd eru af sjóðnum eru einkum:

  • að útvega flóttamönnum lífsnauðsynjar á borð við mat, vatn, lyf og önnur neyðargögn
  • að útvega börnum í flóttamannabúðum nauðsynleg námsgögn
  • að koma á fót öruggum náms- og leiksvæðum fyrir börn
  • að koma á sálfræðilegum stuðningi við börn og fjölskyldur þeirra í flóttamannabúðum

Árið 2016 veittu Barnaheill – Save the Children á Íslandi 20,6 milljónum króna í styrk til Svæðasjóðsins með stuðningi utanríksráðuneytisins. Styrkurinn var meðal annars nýttur í eftirtalin verkefni:

  • Dreifingu nauðsynjavara í Sýrlandi
  • Aðstoð við börn og barnavernd í flóttamannabúðum í Írak þar sem sýrlenskir flóttamenn dvelja
  • Stuðningur við sýrlenska unglinga á flótta sem dvelja í Líbanon og Egyptalandi
  • Stuðningur við menntun og vernd barna í Líbanon en álag þar í landi er gríðarlegt vegna flóttamannastraumsins

Neyðin vegna Sýrlandsstríðsins er viðvarandi og nú dvelja um 1,3 milljónir sýrlenskra flóttamanna í Jórdaníu. Barnaheill – Save the Children á Íslandi hafa á árunum 2017 og 2018 haldið áfram stuðningi við neyðaraðstoð á svæðinu í gegnum Svæðasjóð alþjóðasamtakanna. Barnaheill hafa einnig styrkt Save the Children í Jórdaníu sem hafa meðal annars lagt áherslu á menntun barna í flóttamannabúðum og að fyrirbyggja ótímabær hjónabönd ungra stúlkna.

Ljósmynd: Save the Children/Simini Alam