Átök, hungur og sjúkdómar ógna lífi milljóna barna í Kongó
Lýðstjórnarlýðveldið Kongó stendur frammi fyrir einni verstu mannúðarkreppu heims þar sem börn gjalda hæsta verðið. Þar í landi eiga tvær milljónir barna á hættu á að deyja úr hungri.
Karfan er tóm
Lýðstjórnarlýðveldið Kongó stendur frammi fyrir einni verstu mannúðarkreppu heims þar sem börn gjalda hæsta verðið. Þar í landi eiga tvær milljónir barna á hættu á að deyja úr hungri.
Átök hafa geisað í Lýðstjórnarlýðveldinu Kongó í meira en tvo áratugi. Átökin eru mannskæðasta neyðarástand í heiminum í dag. Mannréttindabrot eru framin úti um allt land og kynferðisofbeldi er beitt sem stríðsvopni. Þar í landi eru börn gríðarlega berskjölduð en ítrekað hefur verið ráðist inn í skóla og sjúkrahús og hefur fjöldi barna verið drepinn eða þau beitt ofbeldi. Einnig veldur vannæring, vosbúð af ýmsu tagi og sjúkdómar á borð við Ebólu og Kóleru miklu manntjóni í landinu. Brýnt er að bæta aðstæður og öryggi barna í Kongó með því að auka mannúðaraðstoð til handa börnunum og fjölskyldum þeirra.
Alþjóðasamtökin Barnaheill – Save the Children hafa starfað í Lýðstjórnarlýðveldinu Kongó frá árinu 1994. Þar leggja samtökin áherslu á barnavernd. Samtökin veita neyðaraðstoð til barna sem þurfa á heilbrigðisþjónustu að halda. Það felur meðal annars í sér að meðhöndla veik börn sem þjást af lungnabólgu, malaríu og niðurgangi sem eru sjúkdómar sem geta dregið börn til dauða ef þau fá ekki rétta meðhöndlun. Einnig gera samtökin við skemmda skóla, útvega námsgögn fyrir börn, veita sálfræðilegan stuðning og hafa byggt upp fjölda barnvænna svæða þar sem börn hafa öruggt rými til að leika sér, læra og skapa. Barnaheill - Save the Children á Íslandi taka beinan þátt í mannúðaraðstoð í Suður-Kivu héraði í Kongó.
Verkefnið miðast að því að vernda börn gegn ofbeldi, misnotkun, útskúfun og vanrækslu, auk þess að vernda börn fyrir því að vera neydd til að ganga til liðs við vígahópa og styðja við þau börn sem hafa þegar verið neydd til þess. Verkefnið miðar að því að ná þessu fram með því að styðja við barnvæn svæði og samfélagslega leidda barnavernd og bjargráð. Einnig er þar unnið með leiðtogaþjálfunina BellaNet sem gegnir því hlutverki að styðja við og efla stúlkur en sú aðferðafræði nýtist vel sem forvörn gegn kynferðisofbeldi. Samtökin hafa hlotið stuðning frá utanríkisráðuneytinu til að veita mannúðaraðstoð í Kongó.
Yannick var 15 ára þegar skæruliðar mættu í þorp hans í Kongó og tóku börn í burtu frá fjölskyldum sínum til þess að þjálfa þau upp sem skæruliða.
Yannick lýsir því hvernig hann og þrjú önnur börn voru látin ganga til móts við skæruliðana, vopnaðir prikum. En þegar skæruliðarnir sáu þau byrjuðu þeir að skjóta.
Barnaheill - Save the Children veittu Yannick öruggt skjól ásamt fleiri börnum og hjálpuðu honum að finna fjölskylduna hans. Þau voru sameinuð aftur á ný.
Luc var aðeins 19 mánaða þegar móðir hans kom með hann á sjúkrahús í Kongó þar sem starfsmenn Save the Children starfa. Hann var meðvitundarlaus. Hann var með alvarlega lungnabólgu og barðist fyrir lífi sínu. Sem betur fer fékk hann skjóta meðhöndlun sem bjargaði lífi hans! Hann fékk sýklalyf og súrefni. Eftir aðeins einn dag var Luc farin að líða betur og fljótlega náði hann sér að fullu. Eftir að Luc var útskrifaður af sjúkrahúsinu hefur honum verið fylgt reglulega eftir og er í dag heilbrigður drengur.
Luc fékk hjálp í tæka tíð, en mörg börn fá hana ekki. Á 30 sekúndna fresti deyr barn úr lungnabólgu eða um 800.000 börn á ári. Vegna kórónuveirufaraldurs hafa sjúkrahús ekki náð að sinna öllum sjúklingum sem þurfa á meðhöndlun að halda. Til að veita börnum eins og Luc aðgang að lyfjum og læknisþjónustu þurfum við á stuðningi þínum að halda, meira en nokkru sinni fyrr. Þú getur keypt lífsnauðsynleg lyf fyrir börn hér.
21. janúar 2021 - Barnaheill í Suður-Kivu í Lýðstjórnarlýðveldinu Kongó
13. janúar 2021 - Hundruð þúsunda barna verða fyrir ofbeldi og dauða á hverjum degi
1. október 2020 - Styrkur til Barnaheilla vegna mannúðaraðstoðar í Lýðstjórnarlýðveldinu Kongó
13. ágúst 2020 - Gleymda stríðið - 83 börn myrt í Kongó