Síerra Leóne

Um Síerra Leóne

 

Síerra Leóne er staðsett í Vestur-Afríku og er eitt fátækasta ríki í heimi. Þar búa 7,9 milljón manns og er landið í 181. sæti af 187 þjóðum á lífskjaralista Sameinuðu þjóðanna. Helmingur íbúa þjóðarinnar eru börn og er staða þeirra í landinu ein sú versta í heiminum. Fjöldi barna glímir við ýmisleg félagsleg og efnahagsleg vandamál og eru berskjölduð fyrir ofbeldi og vanrækslu. 

Stúlkur og konur eru sérstaklega berskjaldaðar fyrir ofbeldi en tíðni þess í landinu er með því mesta sem gerist á heimsvísu. Kynlífsþrælkun, mansal og kynferðisofbeldi er gríðarlega stórt samfélagslegt vandamál í landinu en í febrúar 2019 lýsti forseti landsins yfir neyðarástandi vegna kynferðisofbeldis. Árið áður hafði kynferðisofbeldi nærri því tvöfaldast og var þriðjungur kynferðisbrotamála sem komu inn á borð lögreglu brot gegn ungum stúlkum. Ótímabærar þunganir eru einn af fylgifiskum nauðgana en hlutfall þungana hjá ungum stúlkum í Síerra Leóne er með því hæsta sem þekkist. Í Síerra Leóne eru stúlkur oft hnepptar ungar í hjónaband en 13% kvenna ganga í hjónaband fyrir 15 ára aldur og 39% áður en þær verða 18 ára. Um 64% kvenna á aldrinum 15-49 eru beittar ofbeldi af hendi maka.