1001 dagur

Barnaheill – Save the Children hefur frá árinu 2017 starfað með hópi fagfólks, sem kallar sig 1001 Hópurinn. Hópurinn lætur sig velferð ungra barna og fjölskyldna þeirra varða. Talan 1001 vísar til fjölda daga frá getnaði og fyrstu 2 áranna eftir fæðingu barns.  

Í hópnum eru fagaðilar frá Barnaverndarstofu, Embætti Landlæknis, Geðsviði Landspítala, Geðverndarfélagi Íslands, Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins, Miðstöð foreldra og barna, Rannsóknarstofnun í barna- og fjölskylduvernd við Háskóla Íslands, Þerapeiu meðferðarstofnun, Barnaheillum – Save the Children á Íslandi og foreldrar ungra barna.

1001 Hópurinn telur að tryggja þurfi samhæfða geðheilbrigðisþjónustu frá meðgöngu til 2ja ára aldurs þar sem það er sá tími sem börn verða fyrir mestum áhrifum af umhverfinu. Á þessum tíma er lagður grunnur að þroska, vellíðan og geðheilsu einstaklingsins fram á fullorðinsár. Því viljum við beina athygli ráðamanna að mikilvægi þess að koma til móts við þarfir þessa yngsta og viðkvæmasta hóps.

Hópurinn þrýstir á um eflingu geðheilbrigðisþjónustu fyrir ung börn og fjölskyldur þeirra.

Hér má sjá ákall til þingmanna sem sent var út í aðdraganda vitundarvakningar sem fram fór í dagana 10.–17. október 2017 í tengslum við Alþjóða geðheilbrigðisdaginn.