Dagur mannréttinda barna - 2020

Áskorun til skólastjórnenda og kennara í leik-, grunn- og framhaldsskólum

Barnaheill skora á skólastjórnendur og kennara í leik-, grunn- og framhaldsskólum til að stuðla að fræðslu um barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna á Degi mannréttinda barna sem haldinn er þann 20. nóvember ár hvert. Að þessu sinni mælast samtökin til þess að notast við tvenns konar verkefni sem kennarar geta útfært fyrir nemendur í tilefni dagsins. Annars vegar að hvetja þá til að skrifa sögur og teikna myndir undir yfirskriftinni „Lífið á dögum Covid-19“ og að halda nemendaþing í skólanum þennan dag.

Lífið á dögum Covid-19 – Smásögur og myndsköpun

Á dögum Covid-19 hafa allir fundið  fyrir þeirri röskun sem okkar daglega líf hefur orðið fyrir. Skólastjórnendur og kennarar hafa með starfi sínu unnið mikið þrekvirki að sjá til þess að líf barnanna hefur náð að halda eins miklum stöðugleika og kostur er á. Í ljósi þessara aðstæðna er mikilvægt að fá innsýn í upplifun barna og ungmenna af þessum óvenjulegum tímum, líðan þeirra og hvaða áhrif þessar aðstæður hafa haft á líf þeirra. Kennarar eru því hvattir til að gefa nemendum sínum kost á að skrifa sögur og/eða teikna myndir (eða annars konar myndsköpun) til að koma upplifun sinni á framfæri. Afraksturinn má svo gjarnan senda á netfangið barnaheill@barnaheill.is og verða sögurnar og myndirnar sýnilegar á vefsíðu Barnaheilla.

Nemendaþing í skólum

Ein af mörgum leiðum til að stuðla að mannréttindum barna er að setja á fót svokölluð nemendaþing. Með þeim gefst börnum kostur á að koma hugmyndum sínum og tillögum á framfæri og hlusta á hvað aðrir hafa að segja. Kennarar geta nýtt sér slík þing sem lið í að vinna með grunnþáttinn lýðræði- og mannréttindi og eru hvattir til að hafa nemendaþing í skólanum sem öll börn taka þátt í.
Í ljósi aðstæðna vegna Covid-19 er ef til vill erfiðara að framkvæma slík nemendaþing með stórum hópi nemenda þar sem blöndun þeirra er takmörkuð. Þess í stað er ef til vill hægt að stuðla að slíku þingi innan minni hópa eftir því hvað kennsluhættir og aðstæður bjóða upp á, jafnvel á rafrænan máta. Tilvalið getur verið að ræða um áhrif Covid-19 á daglegt líf barna og kalla jafnvel eftir hugmyndum um hvað þau geti sjálf lagt af mörkum og hvernig þeim finnst sjálfum æskilegt að bregðast við í þessum aðstæðum.
Hér eru hugmyndir sem hægt er að nota til að skipuleggja nemendaþing og að sjálfsögðu eru kennarar hvattir til að taka mið af þeim aðstæðum sem eru í hverjum skóla núna. Niðurstöður/samantekt af nemendaþinginu er svo hægt að senda á netfangið barnaheill@barnaheill.is

Niðurstöðunum er safnað saman nafnlaust án þess að greina frá hvaða skóla það kemur og verður niðurstöðunum komið á framfæri beint við menntamála- og dómsmálaráðuneytið sem Barnaheill eru í beinu samstarfi við sem og önnur ráðuneyti eftir eðli þeirra málefna sem koma fram. Auk þess verða þær sýnilegar á vefsíðu Barnaheilla.

 

Bréf til kennara í leik-, grunn- og framhaldsskólum

Nemendaþing í skólum – hugmyndirDagur mannréttinda bara