Átökin í Sýrlandi í 11 ár

Átökin í Sýrlandi hafa nú staðið í 11 ár og eru lifandi martröð fyrir börn og fjölskyldur þeirra. Milljónir barna hafa aldrei þekkt annað en stríðsástand. Rannsóknir hafa sýnt fram á að átökin munu hafa langvarandi áhrif á börn, en þau þjást mörg af andlegri vanlíðan, streitu og kvíða og munu bera þess merki það sem eftir er ævinnar.

Meirihluti barna í Sýrlandi búa við mikla fátækt og óviðunandi aðstæður. Þau verða vitni að sprengjuárásum allt í kring og upplifa sig óörugg. Óbreyttir borgarar verða fyrir árásum og árið 2021 urðu 15 skólar fyrir árásum.

Um allt land þurfa 6,5 milljónir barna á neyðaraðstoð að halda. 2,5 milljónir barna eru utan skóla og um milljón börn þjást af vannæringu.

Sýrland er í miðri efnahagskreppu þar sem Covid-19 heimsfaraldurinn, átök, gengisfelling gjaldmiðla og skortur á grunnvörum stuðlar að fjárhagslegri baráttu fjölskyldna út um allt land. Verð á matarkörfu hækkaði um 97% frá desember 2020 til desember 2021 sem þýðir að á síðasta ári eyddu fjölskyldur 41% af tekjum sínum í mat. Um 12 milljónir, sem gerir 55% þjóðarinnar, búa við fæðuóöryggi. Fjölskyldur neyðast til að draga verulega úr neyslu á mat og margar eru alfarið háðar neyðaraðstoð. 22% barna hafa neyðst til þess að hætta í skóla til þess að taka þátt í að sjá fyrir heimilinu.

Yousef, 12 ára, er eitt af þeim börnum sem hefur misst foreldra sína í átökunum og býr við mikla fátækt.

Ég hef búið hjá afa mínum síðustu þrjú ár. Vegna átakanna og fjárhagslegra þrenginga þá búum við í ókláruðu húsi. Báðir foreldrar mínir eru dánir. Mamma dó fyrir níu árum í loftárás en ég slasaðist illa í þeirri árás sem olli varanlegum meiðslum í fótum. Pabbi minn dó fyrir þremur árum vegna veikinda. Hann var vanur að fara með mig á spítalann í læknismeðferð en nú er enginn til þess að fara með mig.

Alþjóðasamtök Barnaheilla – Save the Children hafa unnið í Sýrlandi frá árinu 2012 og hafa aðstoðað yfir 5 milljónir manns, þar af 3 milljónir barna. Neyðaraðstoð Barnaheilla styður við barnavernd, menntun barna, fæðuöryggi, veitir heilbirgðisaðstoð og aðra grunnþjónustu. Í kjölfar átaka í Úkraínu hefur aldrei verið meiri fólksflutningur í Evrópu frá síðari heimsstyrjöld. Mikilvægt er að styðja við þau börn sem flýja Úkraínu en ekki má missa sjónar á þeim börnum sem hafa búið við átök í Sýrlandi síðustu 11 ár.

 

 

Barnaheill – Save the Children á Íslandi eru hluti af alþjóðasamtökunum Save the Children sem vinna að réttindum og velferð barna með barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna að leiðarljósi. Barnaheill eru leiðandi afl í að breyta viðhorfum og verklagi varðandi málefni barna. Framtíðarsýn Barnaheilla er heimur þar sem sérhvert barn hefur tækifæri til að lifa og þroskast, fær gæðamenntun, lifir öruggu lífi og hefur tækifæri til að hafa áhrif.
Við stöndum vaktina í þágu barna og gætum réttinda þeirra.