125 börn drepin eða illa særð síðan vopnahlé hófst í mars

Að minnsta kosti 43 börn hafa verið drepin og önnur 84 særð í Norð-vestur Sýrlandi frá því að vopnahlé hófst í mars 2020, samkvæmt greiningu Barnaheilla - Save the Children. Í mars sömdu stríðsaðilar um vopnahlé en samkvæmt nýjustu skýrslu Save the Children á svæðinu hafa stríðsátök aukist og nú í október hefur ástandið aldrei verið verra. Börn og fjölskyldur þeirra eru fórnarlömb árása, þar sem heimili, sjúkrahús og skólar hafa orðið fyrir sprengingum.

Sami 10 ára, missti móður sína og bróður í árás sem gerð var á þorpið þeirra Maarat Al Numan suður af Idlib.

Ég mun aldrei borða ís aftur. Móðir mín og bróðir dóu vegna þess að við ákváðum að fá okkur ís. Ég spurði móður mína hvort að við gætum fengið okkur ís og við fórum saman í ísbúðina. Ísbúðin varð fyrir sprengingu þegar móðir mín og bróðir voru þar inni og þau dóu.

Majda 8 ára, er ein af þeim börnum sem lifðu af sprengjuárás en hún særðist alvarlega.

Ég missti höndina þegar þorpið mitt var fyrir sprengjuárás. Mig dreymir um að fá höndina mína aftur og ef það gerist mun ég aldrei aftur vera erfið við mömmu mína. 

Fouad, þriggja barna faðir í Sýrlandi, segir það skelfilegt að upplifa sprengjuárásirnar í heimabæ hans.

Það erfiðasta sem ég veit er þegar börnin mín heyra í sprengingum og koma öll og grúfa sig í fangið á mér eins og ég gæti verndað þau fyrir árásunum.

Sonia Khush, svæðisstjóri Save the Children í Sýrlandi, segir ástandið í landinu alvarlegt.

,,Þrátt fyrir að ákveðið hafi verið að koma á vopnahléi í mars þá halda stríðsaðilar áfram að drepa börn og fjölskyldur þeirra út um allt land. Þessi fjöldi barna sem hefur látist undanfarna mánuði er sláandi áminning um að börn eru að bera mesta þungann af þessu stríði.
Börn í Norð-vestur Sýrlandi búa við stöðugan ótta. Þau hafa þurft að flýja heimili sín vegna átaka en á tímum heimsfaraldurs er ekki öruggt að flýja í yfirfullar flóttamannabúðir þar sem ógerlegt er að fara eftir sóttvörnum. Að auki er mikið matvælaóöryggi á svæðinu og börn fara svöng að sofa."

Samkvæmt nýrri skýrslu frá Save the Children búa um 700.000 börn í Sýrlandi við mikið hungur. Efnahagur landsins hefur versnað gífurlega vegna átaka og heimsfaraldurs. Kórónuveirufaraldurinn hefur ekki eingöngu sett efnahag landsins á hliðina, heldur er heilbrigðiskerfið að bogna undan miklu álagi. Gögn Sameinuðu þjóðanna sýna fram á að kórónuveirufaraldurinn sé í miklum veldisvexti og hefur hann 20-faldast frá miðjum september fram til október.

Barnaheill - Save the Children kalla eftir því að stríðsaðilar virði vopnahlé og tryggi þar með öryggi barna og fjölskyldna þeirra. Það er nauðsynlegt að börn búi við öryggi og að alþjóðleg mannúðarlög séu virt.