200.000 fylgdarlaus börn í Evrópu

Í dag eru fimm ár frá því að andlát Alan Kurdi, þriggja ára sýrlensks flóttabarns, rataði í heimsfréttirnar. Alan flúði ásamt fjölskyldu sinni átökin í Sýrlandi, á yfirfullum báti yfir Miðjarðarhafið frá Tyrklandi, en báturinn sökk stuttu eftir brottför. Foreldrar hans höfðu borgað 5.860 bandaríkjadali, sem nú samsvarar rúmlega 800 þúsund krónum, fyrir fjögur pláss á bátnum sem hvolfdi. Dauði Alan Kurdis er hörmuleg áminning um þau óteljandi börn sem enn reyna að leita öryggis í Evrópu.

Á síðustu fimm árum hafa að minnsta kosti 700 börn á flótta drukknað í Miðjarðarhafinu - en líklegt er að sú tala sé vanmetin. Það er erfitt að ímynda sér hvað flóttabörn ganga í gegnum. Mörg þeirra hafa aldrei séð sjóinn áður, kvíða sjóferðinni og örlögum sínum í Evrópu. Flest barnanna hafa drauma um betra líf þegar þau flýja átök og ofbeldi yfir til Evrópu.

Tíu þúsund börn föst í Grikklandi

Sérhvert flóttabarn á sér sögu en flest þeirra eru að flýja grimmilegt ofbeldi og misnotkun. Mörg koma frá Sýrlandi þar sem helmingur allra barna í landinu þekkir ekkert annað en stríð. Önnur koma frá Afghanistan þar sem þriðjungur allra þeirra er láta lífið eru börn.

Við ættum aldrei að gleyma sögunum á bak við tölurnar, þrátt fyrir að leiðtogar í Evrópu hafi gert það. Í nýrri skýrslu frá Barnaheillum – Save the Children, Protection Beyond Reach: State of play of refugee and migrant children´s rights in Europe, er skoðað hvernig aðstæður flóttabarna hafa breyst síðustu fimm ár en þar er dregin upp skelfileg mynd.

Mörg barnanna sem reyna að flýja átök og stríð komast aldrei til Evrópu en það er vegna samkomulags sem Evópusambandið hefur gert við Tyrkland og Líbíu og verða börnin því strandaglópar í Tyrklandi á leið sinni til Evrópu. Ef börn komast þaðan og til Evrópu þurfa þau oft að þola hræðilegar aðstæður á grískum eyjum þar sem að meðaltali tíu þúsund börn eru föst á hverjum degi, þar af eru flest börn yngri eru 12 ára. Flest þessara barna skortir grunnþarfir á borð við góða næringu og menntun.

Öruggar leiðir nauðsynlegar

Ótti og óöryggi verða hluti af þeirra lífi, líka þegar þau ná til ,,öruggu hafnarinnar" sem kallast Evrópa. Í dag fá færri börn alþjóðlega vernd í Evrópu en fyrir fimm árum. Mörg lönd í Evrópu hafa tekið upp nýjar takmarkanir sem gera börnum erfiðara fyrir að fá alþjóðlega vernd. Þau fá tímabundna stöðu sem veitir þeim óöryggi og veldur kvíða yfir að verða flutt annað.

Með nýjan fólksflutninga- og hælissáttmála í fararbroddi ætti Evrópusambandið að draga lærdóm af fortíðinni. Fyrir fimm árum fengu stjórnmálamenn fréttir þess efnis að um 10.000 börn hefðu horfið í Evrópu og var þeim brugðið við þær upplýsingar. Samt sem áður hafa margar af þeim ráðstöfunum sem gerðar hafa verið á síðustu árum ekki skilað árangri. Hertari reglur koma ekki í veg fyrir að börn komi til Evrópu, heldur ýta þær undir að börn hverfi og fari ólöglegar leiðir til þess að leita öryggis í Evrópu. Börn hverfa vegna þess að þau treysta ekki kerfinu og lögreglu við landamæri sem oft brýtur á þeim í stað þess að vernda þau.

Ahmed er 15 ára strákur sem flúði átökin í Sýrlandi til Serbíu án foreldra sinna.

,,Þegar ég reyndi að komast yfir landamærin var ég barinn illa af lögreglunni. Ég held að það hafi verið vegna þess að þeir voru að reyna að fá okkur til að fara ekki yfir landamærin.”

Flóttabörn þjást af einkennum áfalla og þunglyndis vegna reynslu sinnar í heimalandinu, erfiðu ferðalagi, biðinni eftir dvalarleyfi og ótta við að vera vísað úr landi. Framkvæmdastjóri Barnaheilla - Save the Children í Evrópu Anita Bay Bundegaard segir að nýjar reglugerðir falli í skuggann af harðri landamærastefnu Evrópusambandsins.

,,Þó að gerðar hafi verið nokkrar úrbætur á landamærastefnu Evrópusambandsins þá falla þær í skuggann af harðri landamærastefnu og ráðstöfunum til að koma í veg fyrir að flóttabörn komist inn til Evrópu. Ný stefna fólksflutninga ætti ekki að kosta líf barna."

Samningur sem Evrópusambandið gerði við Tyrkland felur í sér að ESB ríki hafa heimild til að senda fólk aftur til baka til Tyrklands. Sá samningur hefur ekki borið neinn árangur en á meðan hundruðir þúsunda manna hafa farið frá Tyrklandi yfir til Evrópu hafa aðeins 2000 manns á flótta verið sendir til baka.

Réttur barna til hælis skv. 22. gr. Barnasáttmálans er festur í sáttmála ESB um grundvallarréttindi ásamt skyldunni til að huga að hagsmunum barna. Besta tryggingin til að halda börnum öruggum er með því að setja staðföst lög sem vernda börn og tryggja þeim aðgang að öruggum og löglegum leiðum til að komast til Evrópu, frekar en að fæla þau í hendur smyglara.

Samkvæmt gögnum sem voru tekin saman af Hagstofu Evrópusambandsins (Eurostat), Flóttamannastofnun Sameinuðu þjóðanna (UNHCR) og Barnaheillum – Save the Children, þá tvöfölduðust sjóferðir flóttamanna yfir Miðjarðarhafið milli áranna 2018 og 2019. Einnig eru um 200.000 fylgdarlaus börn í Evrópu. Þau koma þau flest frá Afganhistan, Sýrlandi og Erítreu og dvelja í helst í Þýskalandi, Grikklandi, Ítalíu og Svíþjóð.