22 ára afmælisbarn

petrinamynd1Barnasáttmáli Sameinuðu þjóðanna fagnaði 22 ára afmæli sínu 20. nóvember. Af því tilefni ritaði Petrína Ásgeirsdóttir, framkvæmdastjóri Barnaheilla - Save the Children grein sem birtist í Fréttablaðinu um þennan merkilega samning sem hefur haft víðtæk áhrif á líf barna um allan heim.

petrinamynd1Hinn 20. nóvember 1989 var samningur Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins samþykktur á allsherjarþingi SÞ. Barnasáttmálinn, eins og hann er kallaður í daglegu tali, er því 22 ára og við hæfi að skrifa nokkur orð um afmælisbarnið. Barnasáttmálinn er afar merkilegur samningur og hefur haft víðtæk áhrif á líf barna um allan heim. Hann kveður á um borgaraleg, félagsleg, efnahagsleg og menningarleg réttindi barna og er þannig alþjóðleg viðurkenning á að börn séu engu minni manneskjur en fullorðnir og með fullgild mannréttindi.

Umræður um sérstök réttindi barna hófust mörgum áratugum fyrr. Hin breska Eglantyne Jebb, sem stofnaði Barnaheill – Save the Children 1919, gerði drög að „Yfirlýsingu um réttindi barna“ árið 1923 sem samþykkt var af Þjóðabandalaginu ári síðar. Barnaheill – Save the Children eiga mikinn þátt í tilurð barnasáttmálans og sem alþjóðleg mannréttindasamtök barna er hann leiðarljós í öllu þeirra starfi. Á árinu 2010 náðu samtökin að bæta aðstæður ríflega 100 milljóna barna í 120 löndum en betur má ef duga skal.

Barnasáttmálinn kveður á um skyldur þeirra ríkja sem hann hafa staðfest til að tryggja án mismununar rétt sérhvers barns til mannsæmandi lífs, afkomu og þroska og til að láta skoðanir sínar í ljós. Það er gleðilegt að nær öll ríki heims, fyrir utan Bandaríkin og Sómalíu, hafa staðfest sáttmálann.

Það er hins vegar dapurlegt að mörg ríki uppfylla alls ekki skuldbindingar sínar og enn þann dag í dag er stórlega brotið á mannréttindum barna um heim allan. Sem dæmi má nefna að aðeins 25 lönd hafa bannað með lögum líkamlegar refsingar á börnum þó að barnasáttmálinn kveði skýrt á um vernd barna gegn hvers kyns ofbeldi og þó að öll börn heimsins vilji alast upp án þess að foreldrar þeirra eða forráðamenn leggi hendur á þau. Milljónir barna lifa í örbirgð og árlega deyja átta milljónir barna fyrir fimm ára aldur vegna sjúkdóma sem er auðvelt að lækna. Menntun er undirstaða þess að börn geti þroskað hæfileika sína, en nær 70 milljónir barna eru án skólagöngu.

Til að þetta breytist þurfa stjórnmálamenn um allan heim að setja fjölskyldur og börn ofar á forgangslistann. Fjármagnið er til en fer í annað. Til að mynda var kostnaður heimsins vegna fjármálakreppunnar 11.900 milljarðar Bandaríkjadala árið 2009. Það þyrfti hins vegar ekki nema 54 milljarða Bandaríkjadala til að fæða öll börn heimsins á ári (Fréttablaðið 30. október 2010).