23 börn létu lífið í árás á flóttamannabúðir

Að minnsta kosti 46 manns, þar af 23 börn, létu lífið í árás sem gerð var á flóttamannabúðir í Ituri-héraði í austurhluta Lýðstjórnarlýðveldisins Kongó á mánudagsmorgun.

,,Við erum gjörsamlega eyðilögð og niðurbrotin eftir þessa tilefnislausu árás á flóttamannabúðirnar,” sagði Cecilia Thiam, yfirmaður mannúðarmála Barnaheilla - Save the Children í Lýðstjórnarlýðveldinu Kongó. ,,Börn sem lifðu af sáu hluti sem ekkert barn á að þurfa að sjá eða upplifa. Sum þeirra misstu foreldra sína, vini og jafnaldra," hélt hún áfram.

,,Þessi árás er alvarleg áminning um að börn halda áfram að bera hitann og þungann af átökunum í norðausturhluta Lýðstjórnarlýðveldisins Kongó, þar sem hræðileg mannréttindabrot eru framin gegn þeim á hverjum degi. Börn eru tekin af lífi, þau verða fyrir kynferðisofbeldi, er rænt og neydd til þess að ganga til liðs við vígahópa,” sagði Cecilia.

Barnaheill – Save the Children á Íslandi hafa starfað í Lýðstjórnarlýðveldinu Kongó frá árinu 2012. Í suður-Kivu, austurhluta landsins, styðja Barnaheill við sex Barnvæn svæði þar sem börn geta leitað í öruggt umhverfi. Barnvæn svæði eru eitt af lykilverkefnum Barnaheilla sem stuðla meðal annars að því að vernda börn sem búa á átaka- og hamfarasvæðum fyrir því að verða fyrir líkamlegum skaða og sálrænum áföllum. Einnig er markmiðið að aðstoða börn við nám og þroska.

Barnaheill – Save the Children á Íslandi eru einnig með starfrækt þróunarverkefni í Goma í austurhluta Lýðstjórnarlýðveldisins Kongó sem snýr að því að styðja við og vernda börn sem búa á götunni. Mörg börn búa á götunni í Goma, þau hafa ekki í nein hús að venda og hafa orðið viðskila við foreldra sína af margvíslegum ástæðum, þar með talið vegna átaka.

Nabulungi, sex ára, býr í flóttamannabúðum í norðurhluta Lýðstjórnarlýðveldinu Kongó. 

Lestu nánar um árásina inn á heimasíðu alþjóðasamtaka Barnaheilla – Save the Children

Hér getur þú styrkt verkefni Barnaheilla í Lýðstjórnarlýðveldinu Kongó