28 milljóna króna framlag Barnaheilla til mannúðaraðstoðar í Sýrlandi

Hala (fyrir miðju), 12 ára, í skólanum í smábæ rétt utan við Aleppo. Hún átti þess kost að fara aftu…
Hala (fyrir miðju), 12 ára, í skólanum í smábæ rétt utan við Aleppo. Hún átti þess kost að fara aftur í skóla með hjálp samstarfsaðila Barnaheilla – Save the Children í Sýrlandi. Áður varð hún að vinna til þess að endar næðu saman hjá fjölskyldunni. Ljósmynd: Humanitarian Work Organisation / Save the Children.

Í byrjun vikunnar veittu Barnaheill – Save the Children á Íslandi rúmlega 28 milljónum króna til alþjóðasamtaka Barnaheilla – Save the Children International til stuðnings sýrlenskum börnum og fjölskyldum þeirra innan landamæra Sýrlands og í flóttamannabúðum í nágrannaríkjum. Styrkurinn samanstendur af ýmsum framlögum og stuðningi við samtökin á árinu en langstærsti hluti hans er frá utanríkisráðuneytinu. Ráðuneytið veitti 26,5 milljónum króna til Barnaheilla í nóvember síðastliðinum til mannúðaraðstoðar vegna Sýrlandsstríðsins.

Styrknum verður varið til verkefna á vegum Svæðasjóðs samtakanna í Sýrlandi og nágrannaríkjunum Egyptalandi, Jórdaníu, Tyrklandi, Líbanon og Írak. Sjóðnum er stjórnað af svæðaskrifstofu samtakanna fyrir Mið-Austurlönd  sem staðsett er í Amman í Jórdaníu sem er miðstöð fyrir aðstoð við Sýrland.

Markmið verkefnanna er að lina þjáningar barna og fjölskyldna þeirra sem eru fórnarlömb átakanna í Sýrlandi. Verkefnin snúa að barnavernd, heilbrigðisþjónustu, húsaskjóli, fæði og lífsviðurværi, hreinlætisaðstöðu, næringu og menntun barna. Lögð er áhersla á fórnarlömb á vergangi innan Sýrlands, ennfremur er sérstök áhersla lögð á börn undir fimm ára aldri, ófrískar konur og mæður með börn á brjósti auk forráðamanna barna undir tveggja ára.

Helmingur fórnarlamba átakanna í Sýrlandi eru börn og frá því að átökin hófust árið 2011 hefur öryggi þeirra verið verulega ógnað, grunnþjónustu margra þeirra hefur ekki verið mætt og eru áhrifin á velsæld þeirra gífurleg. Samkvæmt fyrirliggjandi gögnum er einn af hverjum þremur skólum skemmdur eða ónýtur og margir þeirra skóla sem enn standa eru notaðir til annars en að kenna börnum. Tæpar tvær milljónir barna eru utan skóla sem gerir einn þriðja sýrlenskra barna á skólaaldri (5–17 ára) og fer fjöldi barna sem hefur verið utan skóla í yfir fimm ár vaxandi. Engin kennsla fer fram í 74 af 171 flóttamannabúðum. Tíðni bólusetninga hefur hrapað frá 99% í 50–70%. Börn skortir enn vernd og mörg börn flosna upp úr námi vegna þess að þau fara í vinnu eða eru þvinguð í hjónaband.

Barnaheill – Save the Children hafa tæplega 100 ára reynslu af vinnu með börnum og fjölskyldum þeirra sem búa við langvarandi neyð vegna stríðsátaka og annarra hörmunga, sem og að styðja uppbyggingarstarf að stríði loknu. Samtökin hafa haldið úti starfsemi í Mið-Austurlöndum í yfir 60 ár en hjálparstarf vegna ástandsins í Sýrlandi hófst formlega sumarið 2012. Barnaheill – Save the Children eru ein fárra samtaka sem hafa getað unnið innan landamæra Sýrlands. Samtökin vinna náið með samstarfsaðilum á svæðinu.

Barnaheill – Save the Children á Íslandi eru afar þakklát öllum þeim sem hafa styrkt verkefnið.