2 ár frá upphafi átakanna í Sýrlandi

Barnaheill - Save the Children á Íslandi stóðu fyrir kertafleytingu á Reykjavíkurtjörn í gærkvöldi í tilefni af því að 2 ár eru frá upphafi átakanna í Sýrland,i sem hafa kostað um 70.000 manns lífið. Samskonar viðburðir fóru fram víða um heim á vegum samtakanna.

Barnaheill - Save the Children á Íslandi stóðu fyrir kertafleytingu á Reykjavíkurtjörn í gærkvöldi í tilefni af því að 2 ár eru frá upphafi átakanna í Sýrlandi, sem hafa kostað um 70.000 manns lífið. Samskonar viðburðir fóru fram víða um heim á vegum samtakanna.

Birgitta Jónsdóttir, þingmaður og baráttukona, flutti nokkur orð við tjörnina og síðan var mínútu þögn til að minnast þeirra barna sem látið hafa lífið í átökunum eða eiga um sárt að binda vegna þeirra.

„Börnin eru því miður helstu fórnarlömb þessara átaka," segir Erna Reynisdóttir, framkvæmdastjóri Barnaheilla. „Þau hafa upplifað skelfilega hluti, misst ættingja og jafnvel horft á þá deyja og við stöndum frammi fyrir því að heil kynslóð verði aldrei söm vegna þeirra hörmunga sem hún hefur gengið í gegnum. Þetta mun hafa mikil áhrif á samfélögin á þessu svæði og við sem alþjóðasamfélag verðum að gera það sem í okkar valdi stendur til að hjálpa þessu fólki og knýja á um að stríðinu ljúki."

Save the Children standa fyrir alþjóðlegri undirskriftasöfnun til að þrýsta á öryggisráð SÞ að grípa til aðgerða til að koma á friði í Sýrlandi. Þá er einnig í gangi söfnun til að standa straum af kostnaði við hjálparstarfið sem er gífurlegur að sögn Ernu.

„Það er ótvírætt neyðarástand hjá sýrlenskum börnum. Þau eru varnarlaus og hrædd og við verðum að bregðast við," segir Erna að lokum og hvetur alla til að skrifa undir áskorunina og minnir á söfnunarsímana 904 1900 og 904 2900 fyrir þá sem vilja styrkja hjálparstarfið með fjárframlögum.