Ríflega 30 þúsund börn á flótta í Suður-Kordofan í Súdan

Aukin átök og ofbeldi í Suður-Kordofan í Súdan hafa hrakið yfir 60 þúsund manns frá heimilum sínum undanfarna daga. 30 þúsund þeirra eru börn sem eiga á hættu að verða aðskilin frá fjölskyldum sínum og verða fyrir sálrænum skaða og misnotkun. Starfsmenn Barnaheilla – Save the Children á vettvangi hafa gríðarlegar áhyggjur af þessum börnum.

Aukin átök og ofbeldi í Suður-Kordofan í Súdan hafa hrakið yfir 60 þúsund manns frá heimilum sínum undanfarna daga. 30 þúsund þeirra eru börn sem eiga á hættu að verða aðskilin frá fjölskyldum sínum og verða fyrir sálrænum skaða og misnotkun. Starfsmenn Barnaheilla – Save the Children á vettvangi hafa gríðarlegar áhyggjur af þessum börnum.

Íbúar í Suður-Kordofan hafa flúið heimili sín mitt í loftárásum, skothríð, eldsvoðum og gripdeildum. Lang flestar samgönguæðar á landi til og frá Suður-Kordofan eru lokaðar og óöruggar. Það þýðir að  mannúðarsamtök hafa takmarkaðan aðgang að þeim börnum og fjölskyldum sem orðið hafa fyrir barðinu á átökunum á svæðinu. Flugvellinum í höfuðborg Suður-Kordofan, Kadugli, hefur verið lokað og landleiðinni til og frá borginni sömuleiðis. Óttast er að átökin muni breiðast enn frekar út.

„Við höfum gríðarlegar áhyggjur af börnum sem orðið hafa að flýja heimili sín vegna átakanna. Þar að auki, erum við í kapphlaupi við tímann því við verðum að koma aðstoð til barnanna áður en regntímabilið hefst,“ segir Said Amin El Fadil, framkvæmdastjóri Barnaheilla – Save the Children í Súdan. „Við þurfum að fá öruggan aðgang fyrir hjálparsamtök til Suður-Kordofan svo hjálpa megi sem flestum börnum. Barnaheill – Save the Children eru að störfum á vettvangi í norður- og suðurhluta Súdan til að mæta þörfum barna og nú undirbúum við okkur undir að auka umfang hjálpar okkar til að mæta þessu nýja neyðarástandi. Við hvetjum alla hlutaðeigandi til þess að virða friðarsamkomulag og standa vörð um hagsmuni barna og fjölskyldna þeirra í Suður-Kordofan.“

Börn á flótta standa frammi fyrir margvíslegum hættum, s.s. að dragast inn í átök og ofbeldi, að verða vitni að hræðilegum atburðum og verða viðskila við fjölskyldur sínar í ringulreiðinni. Börn, sem eru ein á ferð, eru sérstaklega berskjölduð fyrir kynferðis- og líkamlegri misnotkun og því að vera látin taka þátt í hernaði.

Þessi nýja alda flóttamanna fylgir í kjölfar svipaðra átaka á Abyei-svæðinu og því hættuástandi sem ríkir í Suður-Súdan. Síðustu mánuði hefur straumur fólks legið frá norðurhluta landsins til Suður-Súdan sem að líkindum lýsir yfir sjálfstæði sínu í júlí.