800 þúsund börn í hættu í Taílandi

Fl_Taland_minniBarnaheill - Save the Children vara við því að börnum sem er í hættu vegna flóðanna í Taílandi fjölgar mjög ört. Nú eru um 800 þúsund börn talin vera í hættu. Nær 300 manns hafa látist síðan flóðin hófust í júlí og börn eru í mestri hættu. 

Fl_Taland_minniBarnaheill - Save the Children vara við því að börnum sem er í hættu vegna flóðanna í Taílandi fjölgar mjög ört. Nú eru um 800 þúsund börn talin vera í hættu. Nær 300 manns hafa látist síðan flóðin hófust í júlí og börn eru í mestri hættu. 

Mörg börn og fjölskyldur þeirra eru undir miklu álagi eftir að hafa misst heimili sín og lífsviðurværi. Framtíðin er óskrifað blað og óvíst hvenær líf þeirra verður eðlilegt að nýju. Farm, sjö ára stúlka, hefur eytt meira en viku í fjöldahjálparstöð í Ayutthaya en það er eitt þeirra svæði sem orðið hafa verst úti. „Ég sakna hússins míns og ég vil fara heim. En ég get það ekki.“

Annie Bodmer-Roy er hjálparstarfsmaður á vegum Barnaheilla – Save the Children í Taílandi. „Líf hundruða þúsunda barna hefur umturnast og þau hafa enga hugmynd um hvenær úr rætist. Við höfum miklar áhyggjur af börnum sem orðið hafa viðskila við fjölskyldur sínar, við vitum af reynslunni að það getur verið mjög hættulegt. Það verður að vernda þessi börn. Þau standa frammi fyrir mikilli óvissu og þurfa hjálp við að koma lífi sínu í eðlilegar skorður sem fyrst. “

Barnaheill – Save the Children vinna með ríkisstjórn og yfirvöldum á svæðinu við að tryggja lífsnauðsynlega hjálp til barna og fjölskyldna sem orðið hafa fyrir barðinu á flóðunum, þar á með til farandfólks sem erfiðast er að ná til. Samtökin eru að auka umfang aðgerða sinna til að tryggja að þörfum allra þeirra barna, sem um sárt eiga að binda, sé mætt.

Liður í aðgerðum Barnaheilla – Save the Children við að vernda börnin, er að koma upp sérstökum leiksvæðum í norður Bangkok og Ayutthaya. Nú þegar hefur eitt slíkt svæði verið tekið í notkun og von er á fleirum á næstu dögum og vikum, þegar umfang aðgerðanna eykst. Þessi leiksvæði veita börnum kærkomið tækifæri til að leika við vini sína. Þau fá örlitla tilfinningu fyrir eðlilegu lífi mitt í þeim gríðarlegu breytingum sem þau standa frammi fyrir.

„Við náum nú þegar til þúsunda barna og fjölskyldna í gegnum starf okkar með ríkisstjórn og yfirvöldum á svæðinum en án frekari hjálpar, standa börnin frammi fyrir hrikalegri hættu. Í ljósi umfangs þessara hamfara, er ljóst að þörf verður á neyðaraðstoð og uppbyggingarstarfi næstu mánuði,“ segir Annie Bodmer-Roy.