85.000 börn dáið úr hungri í Jemen

Nusair*, 13 mánaða gamall drengur, ásamt móður sinni, Suad*, á heimili þeirra í Hodeidah. Hann er al…
Nusair*, 13 mánaða gamall drengur, ásamt móður sinni, Suad*, á heimili þeirra í Hodeidah. Hann er alvarlega vannærður.

Frá því að hernaðarbandalag undir forystu Sádi-Araba hóf þátttöku í borgarastyrjöldinni í Jemen er talið að nærri 85 þúsund börn undir fimm ára aldri hafi dáið úr hungri frá því í apríl 2015 þar til í október 2018. Fjórtán milljónir manna eiga á hættu að líða hungur í landinu samkvæmt mati Sameinuðu þjóðanna. Ástandið er hræðilegt.

„Fyrir hvert barn sem lætur lífið í skot- og loftárásum eru tugir barna sem eru að svelta í hel. Það er þyngra en tárum taki að þetta er hungursneyð af manna völdum sem hægt er að koma í veg fyrir,“ segir Tamer Kirolos, yfirmaður Barnaheilla – Save the Children í Jemen.

Frá því að ófriðurinn braust út hafa Barnaheill – Save the Children útvegað mat handa 140 þúsund börnum í Jemen og meðhöndlað ríflega 78 þúsund börn vegna vannæringar. Þrátt fyrir gríðarlega erfitt starf og margar áskoranir tekst að bjarga lífi barna á hverjum degi.

*Nöfnum hefur verið breytt.