Á hverjum degi leiða barnahjónabönd 60 stúlkur til dauða

Ný skýrsla frá alþjóðasamtökum Barnaheilla - Save the Children, sem gefin var út á alþjóðlegum degi stúlkna, bendir til þess að árlega láti yfir 22.000 stúlkur lífið í kjölfar meðgöngu og fæðinga vegna barnahjónabanda.

Vestur og Mið-Afríka hafa hæstu tíðni barnahjónabanda í heiminum og þar á sér stað nær helmingur (9.600) allra áætlaðra dauðsfalla tengdum barnahjónaböndum, sem gerir 26 dauðsföll á dag. Á þessu svæði er tíðni mæðradauða meðal unglingsstúlkna fjórfalt hærri en á nokkru öðru svæði í heiminum.

Á hverju ári verða 2.000 dauðsföll tengd barnahjónaböndum í Suður-Asíu, eða sex á dag, þar á eftir koma Austur-Asía og Kyrrahafsríkin með 650 dauðsföll,eða tvö á dag, og Suður- Ameríka og Karíbahafseyjar, með 560 dauðsföll,eða nánast tvö á dag.

 Þrátt fyrir að komið hafi verið í veg fyrir tæp 80 milljón barnahjónabönd síðastliðin 25 ár, hafa framfarirnar staðnað, jafnvel fyrir Covid-19 heimsfaraldurinn - sem hefur ýtt undir ójafnréttið sem leiðir til barnahjónabanda. Skólum hafa verið lokað, heilbrigðiskerfi yfirhlaðin, jafnvel óstarfhæf og fleiri fjölskyldum hefur verið ýtt út í fátækt. Þetta hefur leitt til þess að stúlkur og konur eru í aukinni hættu á að verða fyrir ofbeldi vegna langvarandi lokana. Áætlað er að um 10 milljónir stúlkna til viðbótar vegna Covid-19 muni ganga í hjónaband fyrir árið 2030.

Inger Ashing, framkvæmdastjóri alþjóðasamtaka Barnaheilla - Save the Children, sagði:

,,Barnahjónabönd eru meðal verstu og lífshættulegustu birtingarmyndar kynbundins ofbeldis gegn stúlkum. Á hverju ári eru milljónir stúlkna neyddar í hjónabönd með mönnum sem oft eru mun eldri en þær sjálfar. Þetta rænir þær tækifærinu til að mennta sig, vera börn og í mörgum tilfellum að lifa“.

Ashing segir að ríkisstjórnir verði að setja stúlkur í forgang. ,,Barneignir eru algengasta dánarorsök unglingsstúlkna því ungir líkamar þeirra eru ekki tilbúnir til þess að ganga með börn. Við getum hvorki, né megum hunsa þá áhættu sem felst í því að börn eignist börn. Ríkisstjórnir verða að setja stúlkur í forgang og sjá til þess að þær séu verndaðar gegn barnahjónaböndum og ótímabærum dauðsföllum af völdum barnsfæðinga. Þetta getur einungis breyst ef stúlkur fá að taka þátt í ákvörðunum sem snerta líf þeirra”.

 Skýrsla frá Barnaheillum - Save the Children í Nígeríu, The state of Nigerian girls: An incisive diagnosis of child, early and forced marriage in Nigeria, sýnir að kynjaójafnrétti ýtir undir barnahjónabönd. Rannsókn sem samtökin framkvæmdu bendir til þess að í mörgum samfélögum ríki sú trú að börn ungra mæðra séu heilbrigðari og gáfaðri.

Jafnvel í löndum þar sem barnahjónabönd eru ólögleg eru undantekningar algengar, þar á meðal í Búrkína Fasó sem hefur eina hæstu tíðni barnahjónabanda í heiminum.

 Viviane, 23 ára, var lofuð manni við fæðingu og neydd til að giftast honum þegar hún var einungis 12 ára. ,,Eiginmaður minn var 54 ára og átti fjórar eiginkonur fyrir. Ég vildi halda áfram að mennta mig og ákvað því að flýja. Ég var handsömuð og send aftur til hans en gerði aðra tilraun til að flýja. Ég byrjaði á því að ganga 40 kílómetra, tókst síðan að komast í rútu og að lokum komst ég í miðstöð sem aðstoðar barnabrúðir eins og mig. Í dag er ég að læra stærðfræði og í þjálfun til þess að verða hjúkrunarfræðingur (samhliða því sem ég fræði aðrar ungar stúlkur um mikilvægi þess að mennta sig”.

Í alþjóðlegu skýrslunni sem alþjóðasamtök Barnaheilla - Save the children gáfu út í dag, Global Girlhood Report 2021: Girls’ rights in crisis, hvetja samtökin ríkisstjórnir til þess að:

  1. Veita stúlkum tækifæri til að láta raddir sínar heyrast með því að styðja rétt þeirra til að taka þátt í lýðræðislegu samfélagi á öruggan máta.
  2. Bregðast við viðvarandi hættu á kynbundnu ofbeldi, þar á meðal barnahjónaböndum, með því að leggja áherslu á réttindi stúlkna og kynjajafnrétti í Covid-19 og mannúðaraðstoð, stefnumótun þróunarmála og öðru umbótastarfi.
  3. Tryggja réttindi allra stúlkna, þar á meðal þeirra sem eru fórnarlömb hvers konar ójafnréttis og mismununar, meðal annars á grundvelli kyns, kynþáttar, fötlunar, fjárhags o.s.frv., með gerð stefnumótana og aðgerðaáætlana án aðgreiningar. Bæta þarf öryggi og siðferði við gagnaöflun svo að betur sé hægt að skilja og bregðast skjótt við áhrifum Covid-19 á ríkjandi hættuástand af völdum efnahags, loftslags og átaka.
  4. Tryggja örugga og ótakmarkaða þátttöku kvenkyns mannúðarstarfsfólks í öllum mannúðarverkefnum, þar á meðal við mat á þörfum, hönnun, framkvæmd, eftirliti og úttekt á mannúðarverkefnum á öllum stigum.
  5. Taka þátt í Generation equality hreyfingunni, sem vinnur að útbreiðslu Global Acceleration áætlunarinnar fyrir kynjajafnrétti, sem hefur það markmið að koma í veg fyrir 9 milljónir barnahjónabanda á næstu 5 árum.