Ábyrg netnotkun

„Ókunnugur karlmaður vill vera vinur dóttur þinnarÞað er ekki heiglum hent fyrir foreldra að fylgjast með netnotkun barna sinna þó þeir telji sig gjarnan gera það. Rannsóknir SAFT hér á landi sýna að á meðan 80% foreldra telja sig vita nákvæmlega hvað börnin þeirra eru að gera á netinu, segja aðeins 20% barna að foreldrum sé kunnugt um athafnir þeirra á netinu. Flestir eru sammála um að internetið verði að umgangast af varúð og virðingu, bæði fyrir sjálfum sér og náunganum. Á saft.is og á netsvar.is  er m.a. að finna ábendingar um örugga netnotkun og heilræði til foreldra um það hvernig þeir geti kennt börnum sínum að umgangast netið. Ýmsar samskiptasíður hafa notið mikillar velgengni hér á landi undanfarin ár og er Facebook þar fremst í flokki.

Á síðunni kemur fram að aldurstakmark þeirra sem þar geta skráð sig inn er 13 ár. Til að skrá sig inn á síðuna, þarf því að gefa upp afmælisdag sem sýnir fram á að viðkomandi hafi aldur til að taka þátt í Facebook-samfélaginu. Barnaheill – Save the Children á Íslandi hafa á undanförnum árum ítrekað fengið ábendingar um börn sem hafa lent í klónum á óprúttnum aðilum á Facebook. Á það bæði við um börn sem eru undir 13 ára aldri og yfir.

Má í því sambandi rifja upp mál 21 árs gamals karlmanns sem nýverið var dæmdur til fimm ára fangelsisvistar fyrir að hafa tælt og nauðgað barnungum stúlkum sem hann kynntist á Facebook. Það er því full ástæða  til að ítreka við foreldra að virða þau aldurstakmörk sem Facebook hefur sett notendum sínum. Ekki er hægt að mæla með því að foreldrar kenni börnum sínum að falsa fæðingarár sitt til að geta verið á Facebook.

Ef börnin hafa náð tilskyldum aldri er ákaflega brýnt að foreldrar fylgist grannt með netnotkun barna sinna  og fari yfir þær grunnreglur sem gilda á netinu, t.a.m. hvað varðar persónuupplýsingar og aðgang að þeim. Foreldrar sem hafa samband við okkur nefna gjarnan að allir vinir barnsins fái að vera á Facebook og erfitt sé að standast þann þrýsting. Ég vil hvetja foreldra til að taka höndum saman og virða þær reglur sem í gildi eru og vera þannig góð fyrirmynd. Þannig verndum við einnig best börnin okkar.Petrína Ásgeirsdóttirframkvæmdastjóri Barnaheilla – Save the Children á Íslandi.“