Aðstæður barna í Jemen eru skelfilegar

Þessi átta mánaða drengur þjáist af alvarlegri vannæringu. Hann býr ásamt fjölskyldu sinni í búðum f…
Þessi átta mánaða drengur þjáist af alvarlegri vannæringu. Hann býr ásamt fjölskyldu sinni í búðum fyrir fólk sem neyðst hefur til að yfirgefa heimili sín og staðsettar eru í Aden. Fjölskylda hans flúði frá Alhudaidah vegna stríðsátakanna. Móðir hans getur ekki haft hann á brjósti vegna aðgerðar sem hún þurfti að undirgangast. Faðir hans er atvinnulaus og varð að selja rúmið sitt til að hafa ráð á að kaupa mjólk sem þeim var ráðlagt að gefa drengunum.

Í fréttatilkynningu Barnaheilla – Save the Children er greint frá hræðilegu ástandi í Jemen.

Stjórnandi Barnaheilla – Save the Children í Jemen, Tamer Kirolos:

„Það skiptir þær milljónir barna sem eru svöng alla daga ekki máli, né foreldra þeirra, sem reyna hvað þeir geta til að afla matar, hvort við köllum matarskortinn í Jemen hungursneyð eða ekki.

Ný könnun á fæðuframboði sem kynnt var nýlega leiðir í ljós að hungursneyðin í Jemen hefur farið versnandi síðast liðið ár þar sem áætlað er að 120.000 börn lifi við skelfilega neyð. Þetta þýðir að þrátt fyrir neyðaraðstoð hefur ekki verið unnt að fullnægja daglegri næringarþörf þeirra í nokkurn tíma. Hefur það leitt til þess að börn líða algjöran skort og svelta í hel. Milljónir barna til viðbótar gætu bæst í þennan hóp fái þau ekki hjálp undir eins.

Barnaheill – Save the Children áætla að 85.000 börn hafi þegar dáið úr hungri eða sjúkdómum frá því stríðið náði hámarki árið 2015. Tölurnar fara hækkandi dag frá degi.

Teymi okkar á ýmsum stöðum hitta fjölskyldur sem koma með alvarlega vannærð börn í örvinglan og von um að hægt sé að bjarga þeim. Það er ekkert hræðilegra en að horfa upp á barn deyja af völdum vannærningar í ljósi þess að komið er í veg fyrir að matur berist til landsins og ofbeldi hindrar dreifingu hans. Þar sem matur er fáanlegur hefur fólk jafnvel ekki efni á að kaupa hann. Vannærð börn verða sjúkdómum, sem hægt er að fyrirbyggja, að bráð þar sem lyfjasendingum seinkar í höfnum og við varðstöðvar.

Þessi skelfilega staða er algjörlega af mannavöldum – bein afleiðing af ofbeldinu sem hófst fyrir nærri fjórum árum og hefur færst í aukana. Eina leiðin til að stöðva þessar þjáningar er að binda endi á ófriðinn og eru sáttaumleitanir sem nú fara fram í Svíþjóð merki um von til þess að svo verði. Við skorum á allar þjóðir sem haft geta áhrif á stríðandi fylkingar að þrýsta á um að þær stöðvi stríðið. Takist það ekki munu enn fleiri börn týna lífi og sagan mun dæma alla þá sem hlut eiga að máli.“