Ævintýrið um Vináttu

Fátt er börnum og foreldrum þeirra mikilvægara en að börnunum líði vel í skólanum, eigi góða félaga og vini, hafi sjálfstraust og góða sjálfsmynd.

Bannerup VináttaVINÁTTA – FORVARNAR­ VERKEFNI GEGN EINELTI FYRIR LEIKSKÓLA 

Fátt er börnum og foreldrum þeirra mikilvægara en að börnunum líði vel í skólanum, eigi góða félaga og vini, hafi sjálfstraust og góða sjálfsmynd. „Þú mátt ekki vera með í leiknum“ eða „ég vil ekki leiða þig“, eru orð leikskólabarna í íslenskum leikskólum, barna sem eru að fóta sig í flóknum heimi og læra samskipti við jafnaldra sína. Svona samskipti virðast sakleysisleg, en ef þau eru endurtekin gagnvart sama barninu án þess að hinir fullorðnu grípi inn í, geta þau þróast út í einelti eða útilokun, sem jafnvel getur varað árum saman. Mikilvægt er að byrgja brunninn og það er á ábyrgð hinna fullorðnu að gera það. 

Barnaheill - Save the Children á Íslandi bjóða leikskólum upp á forvarnarefni gegn einelti sem er mjög árangursríkt og mikil ánægja er með. Efnið nefnist Vinátta, eða Fri for mobberi í Danmörku, þaðan sem það er upprunnið. Um er að ræða raunhæf verkefni í verkefnatösku, ásamt leiðbeiningum fyrir starfsfólk. Vinátta byggir á nýjustu rannsóknum á einelti og ákveðinni hugmyndafræði og gildum. Nú eru 80 leikskólar á Íslandi að vinna með Vináttu. Fljótlega munu Barnaheill einnig bjóða upp á Vináttu fyrir fyrstu bekki grunnskóla. 

UPPHAFIР

Margrét Júlía Rafnsdóttir er verkefnisstjóri Vináttu. Hún kynntist efninu í ársbyrjun 2008 þegar hún var í heimsókn hjá systursamtökum Barnaheilla í Danmörku, Red barnet, þá var nýbúið að hleypa verkefninu af stokkunum þar í landi: 

„Ég hafði strax mikinn áhuga á að fá þetta efni til Íslands fyrir margra hluta sakir. Þar má nefna að efnið byggir á nýjustu rannsóknum á einelti og er í stöðugri þróun auk þess að vera reglulega tekið út og árangursmælt. Þar að auki er mikilvægt að byrja forvarnir snemma og síðast en ekki síst er þetta efni mjög skemmtilegt, auðvelt í notkun og handhægt.“ 

Nokkur ár liðu þar til Vinátta varð að veruleika á Íslandi; „Við vildum vera fullviss um að menn teldu þörf fyrir efnið áður en við færum lengra. Við heimsóttum starfsmenn sveitarfélaga og leikskóla, ráðuneyta og háskóla og sýndum þeim efnið í dönsku töskunni. Við vildum álit þeirra á því hvort við ættum að framleiða efnið til notkunar fyrir leikskóla á Íslandi. Alls staðar var sama viðk