Af hverju fæ ég ekki?

Fátækt meðal barna á sér margar birtingarmyndir. Þegar hugtakið „fátækt“ ber á góma dettur mörgum í hug svelti og jafnvel að viðkomandi búi á götunni. Hugtakið fátækt hefur hins vegar mun víðtækari merkingu en það

Fátækt meðal barna á sér margar birtingarmyndir. Þegar hugtakið „fátækt“ ber á góma dettur mörgum í hug svelti og jafnvel að viðkomandi búi á götunni. Hugtakið fátækt hefur hins vegar mun víðtækari merkingu en það. Í því felst m.a. að hafa ekki ráð á að veita börnum sínum þau lífsgæði sem vilji stendur til eða eru talin nauðsynleg. Hópur þessara barna er ekki einsleitur. Börn einstæðra foreldra og börn innflytjenda eru þó líklegri til að vera hluti af þessum hópi. Foreldrar sem eru aðþrengdir fjárhagslega, þurfa eðli málsins samkvæmt að forgangsraða ef endar eiga að ná saman. Efst á forgangslista eru grunnþarfir, húsaskjól og að fæða og klæða fjölskylduna. Aðrir hlutir verða að mæta afgangi. Ekki geta allir foreldrar tryggt fjölskyldu sinni öruggt húsaskjól til langs tíma eða mat á borðið á hverjum degi. Þessir foreldrar lifa ef til vill í óvissu um hver mánaðamót hvort tekst að greiða alla nauðsynlega reikninga og eiga líka svolítinn afgang. 

Í starfi mínu sem sálfræðingur hef ég oft komið að málum barna efnalítilla foreldra og skynjað að þau fara sannarlega ekki varhluta af áhyggjum foreldra sinna, hvort sem það eru fjárhagsáhyggjur eða aðrar áhyggjur af öðrum ástæðum. Óstöðugleiki, t.a.m. tíðir flutningar ásamt öðrum fylgifiskum viðvarandi efnahagsþrenginga, hafa neikvæð og jafnvel skaðleg áhrif bæði á þroska og tilfinningalíf barnanna. Að vera barn í fjölskyldu sem býr við knappan fjárhag til langs tíma er erfitt hlutskipti. 

Óhjákvæmilega bera börn sig saman við önnur börn. Þau bera heimilislíf sitt t.d. saman við heimilislíf vina sinna þar sem sambærilegur vandi er ekki fyrir hendi. Skilningur barnsins á þessari erfiðu stöðu fjölskyldunnar byggist vissulega á þroska þess og aldri. Engu að síður spyrja unglingar sig allt eins og yngri börnin af hverju þeir geti ekki notið sömu hluta og „önnur börn“ á þeirra aldri. Enda þótt þeir viti e.t.v. svarið eru þeir eðlilega ósáttir við hlutskipti sitt og finnst það ósanngjarnt. Þeir finna oft hvað mest fyrir þessari mismunun ef þeir fá ekki tækifæri til að stunda tómstundir eða t.d. tónlistarnám sem hugur og áhugi beinist að. 

Þessu er svipað farið með yngri börnin sem einnig leiða oft hugann að leikföngum sem þau sjá á heimilum vina sinna og þrá að eignast. Eldri börnin horfa e.t.v. til tölvuleikja/tækja, ferðalaga eða tískufatnaðar sem foreldrar þeirra hafa ekki ráð á að veita þeim. Þau kunna að spyrja „en hvenær þá?“ og svarið er oft „kannski um næstu mánaðamót“ eða „seinna“. Því meiri mismunun sem bö