Ágúst Ólafur Ágústsson hlaut viðurkenningu Barnaheilla

Barnaheill, Save the Children, á Íslandi veittu í dag á 20 ára afmælisdegi Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna, Ágústi Ólafi Ágústssyni viðurkenningu fyrir sérstakt framlag í þágu barna og mannréttinda þeirra. Kolbrún Ingólfsdóttir, móðir Ágústs Ólafs tók við viðurkenningunni fyrir hönd sonar sins, en Ágúst Ólafur er við nám í Bandaríkjunum. Ágúst Ólafur Ágústsson hefur undanfarin ár verið ötull talsmaður þess að Barnasáttmáli Sameinuðu þjóðanna verði lögfestur hér á landi.

Barnasáttmálinn felur í sér alþjóðlega viðurkenningu á því að börn séu hópur sem hafi sjálfstæð réttindi, óháð foreldrum eða forsjáraðilum, og að þau þarfnist sérstakrar umönnunar og verndar umfram fullorðna. Samningurinn tryggir börnum borgaraleg, félagsleg, menningarleg og efnahagsleg réttindi. Öllum þeim sem koma að málefnum barna ber að gera það sem í þeirra valdi stendur til að framfylgja samningnum.

 Sáttmálinn var undirritaður fyrir Íslands hönd árið 1990 og fullgiltur í nóvember 1992. Ágúst Ólafur Ágústsson lauk lögfræði- og hagfræðiprófi frá Háskóla Íslands. Hann var kosinn á Alþingi 2003 og var þingmaður í 6 ár. Fyrir síðustu alþingiskosningar lét Ágúst Ólafur af embætti sem þingmaður en hann stundar nú mastersnám í opinberri stjórnsýslu við New York University. Ágúst Ólafur flutti fyrst þingmál um lögfestingu Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna árið 2005. Eftir það flutti hann málið árlega og barðist fyrir samþykkt þess í sölum Alþingis og víðar.

Ágúst Ólafur hefur ávallt talið að slíkur grundvallarsáttmáli ætti að verða lögfestur hér á landi með sama hætti og gert er með mannréttindasáttmála Evrópu. Hann telur að með lögfestingu Barnasáttmálans verði vægi sáttmálans aukið til muna þar sem stjórnvöld og dómstólar landsins verða að taka mið af honum við úrlausnir mála sem varða börn. Þann 16. mars 2009 var samþykkt á Alþingi þingsályktunartillaga um að lögfesta Barnasáttmálann og stendur nú yfir vinna við frumvarp þar að lútandi. Að mati Barnaheilla eru það mikil tímamót að Alþingi hefur samþykkt að vinna að lögfestingu Barnasáttmálans og telja samtökin að lögfestingin auki verulega vægi sáttmálans í íslensku samfélagi. Barnaheill vilja með viðurkenningu sinni í dag heiðra Ágúst Ólafs fyrir baráttu hans fyrir lögfestingu.

Afhending viðurkenningarinnar fór fram í Þjóðmenningahúsinu og flutti Helgi Ágústsson, formaður Barnaheilla ávarp og Tómas Gauti Jóhannsson nemi í Menntaskólanum í Hamrahlíð afhenti viðurkenninguna. Ari Kvaran og Gunnar Kolbeinsson frá Tónlistarskóla Seltjarnarness spiluðu á trompet. Petrína Ásgeirsdóttir framkvæmdastjóri Barnaheilla stýrði athöfninni. Barnaheill veita árlega viðurkenningu á þessum degi til að vekja athygli á Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna og mikilvægi þess að íslenskt samfélag standi vörð um mannréttindi barna. Viðurkenningin er veitt einstaklingum eða stofnunum sem hafa unnið sérstaklega að málefnum barna, og hafa m