Allt frá hungursneyð til loftslagsbreytinga: 7 helstu ógnir við velferð barna árið 2022

Eftir tvö krefjandi ár þar sem heimsfaraldur hefur eyðilagt efnahagskerfi, reynt á þolmörk heilbrigðiskerfa og mótað stjórnmál, vona margir að betri tímar taki við nú þegar við hringjum inn árið 2022.

Það er hins vegar ljós að fjöldi samtengdra vandamála munu að öllum líkindum setja svip sinn á nýja árið.

Alþjóðasamtök Barnaheilla - Save the Children telja að eftirfarandi 7 áskoranir verði helstu ógnir við velferð barna árið 2022. Það verður að takast á við þessi vandamál af krafti til að koma í veg fyrir enn eitt árið þar sem réttindi barna á heimsvísu fara dvínandi.

Áskorun 1: Komast í gegnum hungursneyð sem er alvarlegri en nokkru sinni fyrr

Árið 2021 hafa milljónir barna glímt við vannæringu vegna COVID-19, átaka og loftslagsbreytinga. Áætlað er að árið 2022 muni 2 milljónir barna láta lífið fyrir 5 ára aldur af sökum vannæringar. Í byrjun desember komu leiðtogar G20-ríkjanna saman í Japan (margir í fjarfundi) til þess að ræða þetta vaxandi vandamál, en munu þeir efna loforð sín?

 

Áskorun 2: Hefja aftur skólastarf eftir tveggja ára slitrótt nám

Börn í Úganda, sem hafa mörg ekki gengið í skóla frá því í mars 2020, vonast til að geta snúið aftur í skóla á nýju ári. Áætlað er að um 117 milljónir barna á heimsvísu séu enn utan skóla vegna Covid-19. Þar að auki voru 260 milljónir barna ekki í skóla áður en faraldurinn hófst. Alþjóðasamtök Barnaheilla – Save the Children hafa rekið „catch up clubs“ til að sjá til þess að nemendur dragist ekki of langt aftur úr á meðan skólar eru lokaðir. Því lengur sem börn eru utan skóla því minni líkur eru á því að þau snúi aftur til náms. Stúlkur eru líklegri til að hætta námi, oft vegna þess að þær eru neyddar í hjónabönd. Áhrif lokana skóla eru mikil en nýleg rannsókn sýndi að fjöldi barna sem getur ekki lesið einfaldan texta við 10 ára aldur hefur aukist úr 53% fyrir COVID-19, upp í 70% í dag.

Áskorun 3: Fá leiðtoga til að hætta að tala og grípa til aðgerða varðandi loftslagsbreytingar

COP26 loftslagsráðstefnan í Glasgow í nóvember 2021 sýndi aukna ákveðni og óþolinmæði grasrótarhreyfinga ungmenna, með Gretu Thunberg fremsta í flokki. Loforð þjóðarleiðtoga á ráðstefnunni í Glasgow eru ekki nógu róttæk miðað við hversu alvarlegt vandamálið er. Aðgerðaleysi fullorðinna mun bitna mest á börnum. Næsta loftslagsráðstefna, COP27, mun leiða í ljós hvort leiðtogar geti breytt innantómum loforðum Glasgow ráðstefnunnar yfir í aðgerðir sem munu stuðla að öruggari framtíð fyrir börn.

Áskorun 4: Metfjöldi býr við átök

Aldrei áður hafa jafn margir búið á átakasvæðum. Í dag búa um 200 milljónir barna á stríðssvæðum, sem er 20% aukning frá árinu áður. Mörg þeirra voru nú þegar að berjast við hungursneyð og afleiðingar loftslagsbreytinga. Mannréttindasamtök reyna að vernda börn gegn verstu afleiðingum stríða, en þau hafa meðal annars fengið 112 lönd til að skrifa undir Safe School Declaration sem bannar stríðsátök við skóla.

Áskorun 5: Skert mannréttindi barna vegna baráttu gegn hryðjuverkum

Undanfarið hefur vígahópum sem eru ekki á vegum yfirvalda fjölgað mikið. Börn eru oft neydd til liðs við þessa hópa en þegar yfirvöld handsama börnin eru þau oft látin sæta hörðum refsingum. Börn sem eru talin tilheyra ISIS samtökunum eru föst í búðum í Norð-austur Sýrlandi og börnum sem eru meðlimir vígahópa í Lýðstjórnarlýðveldinu Kongó er haldið föngum, svipt ríkisborgararétt sínum og er mismunað. Árið 2022 verður að halda áfram vinnunni við að ná börnum úr haldi vígahópa, koma þeim aftur á heimaslóðir og inn í samfélagið og reyna að halda í hluta barnæsku þeirra.

Áskorun 6: Finna hæli fyrir börn sem hafa verið hrakin á flótta.

Börn á flótta hafa ekki verið fleiri frá því í seinni heimstyrjöldinni, en á árunum 2005 til 2020 fjölgaði þeim úr 4 milljónum upp í 10 milljónir. Myndir af bágstöddum, jafnvel deyjandi börnum að flýja yfir landamæri hreyfa reglulega við almenningi og hafa áhrif á stefnumótun. Það lítur ekki út fyrir að flóttamannastraumurinn muni minnka árið 2022, spurningin er hvort börn geti átt von á því að vera veitt hjálparhönd.

Áskorun 7: Koma í veg fyrir hærri tíðni barnadauða af völdum COVID-19

Síðastliðin 30 ár hefur tíðni barnadauða lækkað um næstum 60%. Aukið álag á heilbrigðiskerfi vegna COVID-19 hefur hinsvegar orðið til þess að sjúkdómar sem voru í rénum eru farnir að rísa aftur. Dauðsföllum af völdum malaríu hefur fækkað í gegnum árin, en síðan COVID-19 faraldurinn hófst hefur malaríudauðsföllum fjölgað í 32 löndum. Talið er að tíðni barnadauða gæti hækkað árið 2022, í fyrsta sinn í marga áratugi. Það hafa þó einnig einhverjar framfarir átt sér stað t.d. fyrsta virka bóluefnið gegn malaríu. Þetta veitir okkur von um það að þróun á bóluefnum, sem faraldurinn ýtti undir, muni hjálpa börnum þegar til lengri tíma er litið.