Áramótaheit í þágu barna

Höfundur er Margrét Júlía Rafnsdóttir, verkefnastjóri innlendra verkefna hjá Barnaheillum.
Höfundur er Margrét Júlía Rafnsdóttir, verkefnastjóri innlendra verkefna hjá Barnaheillum.

Í upphafi hvers árs líta margir yfir farinn veg, horfa til framtíðar og setja sér jafnvel markmið eða áramótaheit. Mig langar í þessum litla pistli að líta yfir nokkuð langan farinn veg mannkyns og samskipti þess við móður Jörð. Frá fyrstu tíð hefur mannkynið nýtt sér auðlindir Jarðar til að auðvelda sér lífsbaráttuna. Öldum saman gat móðir Jörð gefið af sér og framleitt jöfnum höndum. Mannkyni fjölgaði og ganga fór á auðlindirnar og jafnvægið raskaðist. Á 18. öld uppgötvaði mannkynið að hægt væri að nýta orkugjafa úr iðrum jarðar en hafði fram til þess tíma mest nýtt sér timbur. Iðnbyltingin hófst með brennslu á kolum og svo á olíu. Kolefni var sem sagt tekið úr iðrum jarðar, brennt, orka myndaðist og við efnahvörfin urðu til loftegundir, svokallaðar gróðurhúsalofttegundir. Jörð tók að hlýna, því lofttegundirnar sem nú svifu um í andrúmsloftinu, hindruðu að varminn kæmist frá jörðinni.

Fljótlega fóru vísindamenn að sjá að hverju stefndi og að hlýnandi Jörð myndi hafa alvarlegar afleiðingar í för með sér, bæði fyrir Jörðina sjálfa og mannkyn allt, ekki síst fyrir þá sem bjuggu þá þegar við erfiðar aðstæður og fátækt. Veðuröfgar myndu verða meiri, sjávarborð hækka, flóð myndu aukast og þurrkar og svæði yrðu óbyggileg.

Lengi vel skelltu ráðamenn skollaeyrum við þessum spádómum og útblástur hélt áfram að aukast. Árið 1987 kom hugtakið sjálfbær þróun fram. Þjóðir heims skrifuðu svo undir sáttmála um að skila jörðinni til komandi kynslóða í ekki síðra ástandi en þær tóku við henni og þar með vinna að sjálfbærri þróun. Margsinnis hafa verið undirrituð slík loforð, en minna hefur verið um efndir. Segja má að ráðamenn frá þessum tíma hafi svikið loforð sitt við afkomendur sínar, því nú eru spádómarnir því miður að raungerast fyrir framan nefið á okkur.

Barnaheill – Save the Children sem hafa unnið að mannréttindum barna í meira en 100 ár hafa gert baráttuna gegn loftslagsbreytingum að einu af sínu meginverkefnum, þar sem loftslagsbreytingar ógna mannréttindum barna. Loftslagsbreytingar ógna rétti barna til lífs, verndar og menntunar. Áhrifin eru mest á börn sem búa í viðkvæmum samfélögum, þar sem innviðir eru slæmir og fátækt mikil.. Samkvæmt úttektum samtakanna mun vannærðum börnum fjölga um meira en 25 milljónir og skólaganga mun skerðast. Vegna afleiðinga loftslagsbreytinga mun jarðarbúum sem þurfa að leggja á flótta frá heimilum sínum fjölga til muna. Þar með talið eru allt að 142 milljónir fólks sem býr sunnan Sahara og í Suður-Asíu. Stór hluti þeirra eru börn. Þær þjóðir sem hafa valdið mestum útblæstri á kolefni til þessa eru þær þjóðir sem best standa, eða ríkustu þjóðirnar með bestu innviðina. Þær þjóðir sem líða mest vegna loftlagsbreytinga eru þær sem hafa valdið minnstum skaða en mega við minnstum áföllum vegna slæmra innviða og fátæktar.

Barnaheill – Save the Children á Íslandi vilja hvetja stjórnvöld á Íslandi og landsmenn alla að gera baráttuna gegn loftslagsbreytingum að sínu áramótaheiti fyrir árið 2022. Með því að vinna gegn loftslagsbreytingum tryggjum við börnum þau mannréttindi sem þau eiga að njóta samkvæmt barnasáttmála Sameinuðu þjóðann sem er lögfestur á Íslandi.

Megi árið 2022 færa börnum heimsins öryggi, frið og velferð. Sameinuð getum við tryggt það.

Frétt birtist á Fréttablaðið.is þann 20. janúar 2021