Árið er 2030 og Íslandi hefur tekist að útrýma fátækt meðal barna.

Höfundur er Margrét Júlía Rafnsdóttir, verkefnastjóri innlendra verkefna hjá Barnaheillum
Höfundur er Margrét Júlía Rafnsdóttir, verkefnastjóri innlendra verkefna hjá Barnaheillum

Ef árið væri 2030 væri ánægjulegt að geta birt eftirfarandi grein:

Ísland er fyrst landa Evrópu til að uppræta með öllu fátækt meðal barna (í landinu) og er þannig fyrirmynd annarra þjóða um að það sé hægt.

Fátækt er ekki náttúrulögmál og því settu íslensk stjórnvöld sér stefnu og áætlun árið 2023 um að vera búin að uppræta fátækt og félagslega einangrun á Íslandi fyrir árið 2030 og þar með uppfylla fyrsta markmið heimsmarkmiða Sameinuðu þjóðanna frá árinu 2015 og gott betur. Þar er kveðið á um að fækka skuli þeim sem búa við fátækt um a.m.k helming fyrir árið 2030.

Barnaheill- Save the Children á Íslandi fagna því að nú búi öll börn á Íslandi við sömu tækifæri til menntunar, heilsu, velferðar, öryggis og þátttöku. Öll búa þau við öruggan og heilsusamlegan húsakost með fjölskyldum sínum, þar sem stjórnvöld hafa tryggt uppbyggingu á félagslegri húsnæðisþjónustu. Öruggt húsnæði er grundvallar mannréttindi og á ekki að lúta markaðslögmálum heldur er nú litið á slíkt sem þjónustu líkt og heilbrigðisþjónustu.

Barnheill vilja þakka íslensku þjóðinni fyrir að hafa forgangsraðað þessu málefni undanfarin ár og allir sem aflögufærir voru hafa lagt sitt af mörkum í sameiginlega sjóði. Þess vegna er nú hægt að veita öllum börnum gjaldfrjálsa menntun við hæfi til 18 ára aldurs og aðgengi að tómstundum við hæfi, menningu og listum og þar með að fá að þroska hæfileika sína, efla sjálfsmynd, eiga drauma og sjá þá rætast. Nú fá öll börn næringarríka gjaldfrjálsa máltíð í skólum og er það vel, enda hefur það tíðkast lengi í mörgum nágrannalanda okkar svo sem Finnlandi.

Barnaheill vilja sérstaklega þakka að biðlistum fyrir þjónustu við börn sem eiga við sálrænan eða félagslegan vanda að stríða hefur verið eytt og er það mikið heillaskref í þágu velferðar barna og fjölskyldna þeirra. Eitt ár í lífi barns er langur tími og of stórt hlutfall af lífinu til að bíða eftir þjónustu. Nú er geðheilbrigðisþjónusta fyrir börn gjaldfrjáls enda er jafn mikilvægt að sinna slíku og öðrum heilsufarslegum áskorunum fljótt og vel. Þetta er eitt mikilvægasta skref sem stjórnvöld hafa tekið í þágu barna.

Árið 2023 bjuggu 13, 1% barna við fátækt, eða á heimilum undir lágtekjumörkum og 24,1% íslenskra heimila bjó við skort. Helmingur þeirra heimila voru heimili einstæðra foreldra og 16,1 % heimilanna voru heimili þar sem bjuggu a. m. k tveir fullorðnir og börn. Barnaheill vilja þakka þann skilning sem stjórnvöld og almenningur hafa sýnt því að barnafjölskyldur hafa mikla greiðslubyrði og því þurftu þær meiri stuðning. Með þeim stuðningi er tryggt að öll börn geta notið þeirra réttinda sem þeim ber samkvæmt barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna og þeim ekki mismunað vegna stöðu þeirra svo sem efnahagslegrar stöðu foreldra. Því er ánægjulegt að sjá að greiðslur til barnafjölskyldna hafa verið auknar og miða nú við framfærsluviðmið. Áður hétu þær greiðslur barnabætur en heita nú barnastyrkur sem vísar til þess styrkleika sem fjölskyldur geta búið yfir fái þær þann stuðning sem þær þurfa, félagslegan eða fjárhagslegan.

Að fjárfesta í börnum er fjárfesting til framtíðar fyrir samfélagið allt. Fátækt er brot á mannréttindum barna og skerðir möguleika þeirra til heilsu og velferðar.

Því miður á þessi grein ekki við núna, árið er 2023 og enn eiga 13,1% barna á Íslandi á hættu að búa við fátækt og félagslega einangrun. Það eru því um 10.000 börn sem ekki fá notið þeirra réttinda sem þeim ber samkvæmt barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna. Við getum breytt því ef við viljum.

Skrifaðu undir áskorun Barnaheilla – Save the Children á Íslandi um að uppræta fátækt meðal barna.

 

Grein birtist í Fréttablaðinu þann 21. mars 2023.

Höfundur er Margrét Júlía Rafnsdóttir, verkefnastjóri innlendra verkefna hjá Barnaheillum.