Áskorun til Ríkisskattstjóra um bætt vinnubrögð

Barnaheill – Save the Children á Íslandi hafa ásamt fleiri félögum sem vinna að mannréttindum barna sent áskorun á Ríkisskattstjóra um bætt vinnubrögð. Tildrög áskorunarinnar er neitun Ríkisskattstjóra á skráningu stjórnarmeðlims hjá Landssambandi Ungmennafélaga fyrir aldurs sakir. 

Barnaheill – Save the Children á Íslandi hafa ásamt fjórum félögum sem vinna að mannréttindum barna sent áskorun á Ríkisskattstjóra um bætt vinnubrögð. Tildrög áskorunarinnar er neitun Ríkisskattstjóra á skráningu stjórnarmeðlims hjá Landssambandi Ungmennafélaga fyrir aldurs sakir. Félögin telja þessa neitun ganga gegn réttindum barna og ungmenna, líkt og nánar er rakið í meðfylgjandi áskorun sem er svohljóðandi: 

Áskorun til Ríkisskattstjóra

Börn eru einstaklingar með sjálfstæð mannréttindi. Eiga mannréttindaákvæði stjórnarskrár lýðveldisins Íslands nr. 33/1944 því jafnt við um börn sem fullorðna, þar á meðal ákvæði um félagafrelsi og jafnræði. Réttindi barna til tjáningar og þátttöku í samfélaginu eru einnig sérstaklega tryggð í 12. til 17. gr. barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna, sbr. lög nr. 19/2013. Eiga börn því sjálfstæðan rétt til þess að stofna og taka þátt í félögum.

Neðangreindir aðilar hafa orðið þess áskynja að Ríkisskattstjóri (hér eftir Rsk) hafi neitað almennum félögum um breytingar á skráningarskyldum upplýsingum sínum. Neitun, sem eitt neðangreindra félaga fékk, hefur Rsk byggt á þeim forsendum að ólögráða einstaklingur eigi sæti í stjórn og skrifi þar af leiðandi undir tilkynningu til Rsk. Þessa tilkynningu kveðst Rsk ekki geta tekið gilda vegna skorts á lögræði stjórnarmeðlims. Þrátt fyrir ítrekaðar beiðnir hefur Rsk ekki getað vísað til lagaheimildar settra laga, neitunum sínum til stuðnings, þó stofnunin sé bundin af lögmætisreglu stjórnsýsluréttar. Má því ætla að lagaheimild skorti fyrir því að synja börnum og ungmennum um setu í stjórnum almennra félaga eða félagasamtaka. 

Til að bregðast við þessu hefur Rsk ráðlagt félaginu að reka aðila undir lögaldri úr stjórn sinni og kjósa nýjan lögráða stjórnarmeðlim. Því er ljóst að afstaða Rsk er sú að einstaklingar undir lögræðisaldri séu í raun ekki kjörgengir í stjórnir almennra félaga, óháð samþykktum félaganna sjálfra þrátt fyrir að lagaheimild fyrir þeirri afstöðu skorti. Þetta harma neðangreindir aðilar mjög og undra sig á vinnubrögðum Rsk í þessu máli, sér í lagi þar sem Rsk hefur ekki gefið félaginu færi á að fara vægari leið til að sinna lögbundinni skráningarskyldu sinni, í anda meðalhófsreglu stjórnsýsluréttar.

Vel kann að vera að vilji Rsk standi helst til þess að vernda ólögráða ungmenni, vegna þeirrar ábyrgðar sem stjórnarmenn almennra félaga kunna að bera. Þó ber að