Áskorun til stjórnvalda vegna mannréttindabrota á sýrlenskum börnum

Barnaheill – Save the Children á Íslandi skora á íslensk stjórnvöld að beita sér tafarlaust fyrir því að mannréttindabrot gegn börnum í Sýrlandi verði stöðvuð. Nú þegar þrjú ár eru liðin frá upphafi átakanna hafa sýrlensk börn þolað hryllilegar þjáningar. Gróflega er brotið á rétti barna sem þau eiga samkvæmt barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna. 

Barnaheill – Save the Children á Íslandi skora á íslensk stjórnvöld aðbeita sér tafarlaust fyrir því að mannréttindabrot gegn börnum í Sýrlandi verði stöðvuð. Gróflega er brotið á rétti barna sem þau eiga samkvæmt barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna. Í 4. grein sáttmálans er kveðið á um að aðildarríki hjálpist að við að tryggja börnum heims þennan rétt sinn. Með því að undirrita Barnasáttmálann hafa íslensk stjórnvöld því skuldbundið sig til að stuðla að því að mannréttindi barna séu virt.

Í dag eru þrjú ár frá upphafi átakanna og sýrlensk börn hafa þolað hryllilegar þjáningar. Meira en 10 þúsund börn hafa týnt lífi í grimmilegum átökum og rúmlega milljón börn hafa neyðst til að flýja heimaland sitt. Fyrir börnin sem enn búa í Sýrlandi, eru það ekki bara byssukúlur og sprengjuregn sem drepa og lama, heldur veldur skortur á grunnheilbrigðisþjónustu sjúkdómum og jafnvel dauða.

Sum börn þekkja aðeins líf í stríði, búsetu í flóttamannabúðum, matarskort og ástvinamissi. Ekkert barn á að þurfa að búa við slíkar aðstæður. Eftir þriggja ára stríðsrekstur er þörfin fyrir mannúðaraðstoð gífurleg og enn eru Barnaheill - Save the Children með í forgangi að útvega lífsnauðsynlega þjónustu fyrir sýrlensk börn og fjölskyldur þeirra.

Nú eru 60% spítala landsins skemmdir eða rústir einar. Næstum helmingur sýrlenskra lækna hefur flúið land. Í Aleppo, borg, sem ætti að búa yfir 2.500 læknum, eru 36 starfandi læknar. Starfsfólk Barnaheilla – Save the Children lýsir því að nýburar í hitakössum deyji vegna rafmagnsleysis, blóðbirgðir séu á þrotum og mikill skortur sé á helstu lyfjum. Aukinn fjöldi barna þjáist og deyr úr sjúkdómum sem áður var auðvelt að meðhöndla eða koma í veg fyrir.

Í skýrslu Barnaheilla – Save the Children, A devastating toll, sem kom út á mánudag, kemur berlega í ljós hversu innviðir sýrlensks samfélags eru laskaðir.  Þetta hefur gífurleg áhrif á líf barna, heilsu þeirra og afkomu.

Alþjóðasamfélagið hefur brugðist sýrlenskum börnum og hvetja Barnaheill íslensk stjórnvöld til að beita sér af meiri ákveðni og festu til að koma í veg fyrir frekari mannréttindabrot, þjáningar og dauða sýrlenskra barna og fjölskyldna þeirra.

 

Virðingarfyllst

Erna Reynisdóttir

Framkvæmdastjóri