Áskorun til þingmana vegna fjárlagagerðar

Barnaheill - Save the Children á Íslandi hafa sent þingmönnum ásorun vegna fjárlagagerðar 2014 þar sem meðal annars er lögð áhersla á að börnum sé ekki mismunað vegna stöðu foreldra þeirra.
 

Áskorun til alþingismanna vegna fjárlagagerðar
Barnaheill - Save the Children á Íslandi vilja hvetja alþingismenn að forgangsraða í þágu barna og fjölskyldna þeirra og standa vörð um réttindi allra barna við gerð fjárlaga fyrir árið 2014. Samkvæmt Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna sem Alþingi lögfesti í byrjun árs 2013 eiga öll börn á Íslandi rétt á að njóta þeirra réttinda sem sáttmálinn kveður á um og ekki má mismuna börnum sökum stöðu þeirra eða foreldra þeirra. Fjárlög eru tæki til að jafna stöðu barna á Íslandi og með réttlátri fjárlagagerð er hægt að tryggja að ekkert barn þurfi að lifa við fátækt og að öll börn geti notið menntunar, heilsugæslu, umönnunar og verndar.
Því vilja Barnaheill beina því til alþingismanna að gæta þess að engar ákvarðanir verði teknar sem skerða réttindi barna eða sem leiða til þess að þeim verði mismunað sökum stöðu þeirra eða foreldra þeirra.
Barnaheill - Save the Children á Íslandi vilja sérstaklega leggja áherslu á eftirfarandi:

Tryggja þarf að barnabætur og aðrar bætur sem koma úr ríkissjóði séu það jöfnunartæki sem þeim ber, því er mikilvægt að barnabætur verði ekki skertar.
Að fæðingarorlof verði lengt og jafnframt tryggt með lögum að börn njóti öruggrar leikskólavistunar strax að loknu fæðingar- eða foreldraorlofi. Þannig verði öllum börnum tryggð umönnun foreldra sinna á fyrsta æviárinu. Mikilvægt er að stuðlað sé að því að báðir foreldrar nýti þann rétt til fæðingar- og foreldraorlofs sem þeim er tryggður með lögum, en slíkt er barninu fyrir bestu.
Að öll heilbrigðisþjónusta fyrir börn sé endurgjaldslaus. Börnum verði því ekki mismunað vegna stöðu eða efnahags foreldra þeirra.
Að skólum verði gert kleift að koma til móts við þarfir allra barna og þannig verði stuðlað að sterkri sjálfsmynd barna og minnkun á brottfalli úr framhaldsskólum.
Að lögð verði áhersla á forvarnir, svo sem gegn hvers kyns ofbeldi gegn börnum og þannig komið í veg fyrir erfiðleika sem geta fylgt þeim fram eftir aldri.
Barnaheill - Save the Children á Íslandi vilja benda á að allt að 9000 börn á Íslandi búa við fátækt, efnislegan skort og félagslega einangrun. Slíkt er algjörlega óásættanlegt og ber með öllum tiltækum ráðum að breyta stöðu þessara barna og tryggja að ekkert barn á Íslandi búi við fátækt.

Barnaheill - Save the Children á Íslandi vilja árétta að einstaklingar eru börn til 18 ára aldurs. Börn geta ekki sjálf staðið vörð um eigin réttindi og foreldrar eru ekki allir í stakk búnir til að veita börnum sínum þann stuðning, umönnun og vernd sem þau eiga rétt á. Íslensk stjórnvöld verða því að tryggja foreldrum og skólum stuðning til að geta uppfyllt hlutverk sitt.Þegar til lengri tíma er litið er það fjárfesting til framtíðar og sparnaður fyrir samfélagið að búa vel að börnum. Samfélag sem hlúir vel að börnum og fjölskyldum þeirra er gott samfélag. Okkur ber öllum skylda til að standa saman að velferð barna. Það þarf þjóð til að vernda barn. Að forgangsraða í þágu barna er íslenskri þjóð til heilla til framtíðar.
Mikilvægt er að íslensk þjóð taki þátt í baráttunni gegn fátækt og ójöfnuði í heiminum með því auka framlög til þróunaraðstoðar. Slíkt kemur ekki síst börnum til góða.