Áskorun til þingmanna vegna áfengisfrumvarps

Barnaheill - Save the Children á Íslandi skora á þingmenn að hafa réttindi barna í forgrunni þegar ákvörðun um áfengisfrumvarpið er tekið. Öllum þingmönnum var sendur eftirfarandi tölvupóstur í dag:

Barnaheill - Save the Children á Íslandi skora á þingmenn að hafa réttindi barna í forgrunni þegar ákvörðun um áfengisfrumvarpið er tekið. Öllum þingmönnum var sendur eftirfarandi tölvupóstur í dag:

Kæri þingmaður

Fyrir Alþingi er nú til meðferðar frumvarp til laga um verslun með áfengi og tóbak, þar sem lagt er til að einkasala ÁTVR á smásölu áfengis verði aflagt. Barnaheill – Save the Children á Íslandi hvetja þig eindregið til að huga að neikvæðum afleiðingum sem aukið aðgengi að áfengi mun hafa á velferð barna og unglinga, áður en þú greiðir atkvæði um frumvarpið.

Við viljum minna þig á að samkvæmt 3. gr. barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna, sem nú er hluti af íslenskum lögum, ber þér að setja hagsmuni barna í forgang þegar þú tekur ákvarðanir sem hafa áhrif á börn með einum eða öðrum hætti. Hagsmunir barna af því að njóta verndar gegn skaðlegum áhrifum áfengis eiga því að vega þyngra en hugsanlegir hagsmunir fullorðinna af því að geta keypt áfengi í almennum verslunum. Má í því sambandi einnig benda á að íslenska ríkinu er skylt að gera allar viðeigandi ráðstafanir, þar á meðal á sviði löggjafar, til þess að vernda börn gegn skaðlegum áhrifum áfengis og annarra vímuefna, sbr. meðal annars 33. gr. Barnasáttmálans. Í viðhengi má lesa umsögn Barnaheilla um frumvarpið. Enn fremur má hér sjá glærur úr fyrirlestri fulltrúa Barnaheilla á fundi samtakanna Náum áttum þar sem fjallað var um frumvarpið: http://naumattum.is/doc/2880

Við hvetjum þig einnig til þess að kynna þér rannsóknir og afstöðu fagfólks á sviði heilbrigðis- og félagsmála til frumvarpsins, sjá til dæmis hér á heimasíðu embættis landlæknis.

 

Þá var Nefndarsviði Alþingis send eftirfarandi umsögn Barnaheilla um frumvarpið:

 

Reykjavík 05. nóvember 2014
Nefndasvið Alþingis
Austurstræti 8-10
150 Reykjavík

Umsögn Barnaheilla - Save the Children á Íslandi um frumvarp til laga um verslun með áfengi og tóbak o.fl. (smásala áfengis). Þingskjal 17 – 17. mál.

(Lagt fyrir Alþingi á 144. löggjafarþingi 2014–2015.)

Barnaheill – Save the Children á Íslandi lýsa yfir áhyggjum sínum við framkomið lagafumvarp þar sem lagt er til að einkaleyfi Áfengis- og tóbaksverslunar ríkisins á smásölu áfengis verði aflagt og smásala áfengis verði að ákveðnu marki frjáls.