Átakið Stöðvum stríð gegn börnum hófst formlega í dag

Stöðvum stríð gegn börnum, sögðu nemendur Rimaskóla.
Stöðvum stríð gegn börnum, sögðu nemendur Rimaskóla.

Í dag, 16. maí, tóku börn um allan heim þátt í ákalli Barnaheilla – Save the Children um að stöðva stríð gegn börnum. En 420 milljónir barna í heiminum búa á svæðum þar sem átök geisa. Dagurinn markar upphaf átaksins STÖÐVUM STRÍÐ GEGN BÖRNUM (STOP THE WAR ON CHILDREN) sem er í tilefni af 100 ára afmæli Barnaheilla – Save the Children. Í dag fór einnig fram málþing á vegum samtakanna í Friðarhöllinni í Haag í Hollandi þar sem meðal annars var fjallað um vernd barna í vopnuðum átökum og nauðsyn þess að draga til ábyrgðar og sækja til saka alla þá sem brjóta á mannréttindum barna á átakasvæðum. Meðal þeirra sem fluttu erindi var Helle Thorning-Schmidt, framkvæmdastjóri Save the Children og Michelle Bachelet frá Mannréttindaráði Sameinuðu þjóðanna.

Um það bil 500 nemendur Rimaskóla tóku þátt í þessum táknræna viðburði ásamt þúsundum barna um allan heim.

Í fréttatilkynningu Barnaheilla – Save the Children segir frá nýrri greiningu samtakanna, sem gerð var opinber í tilefni dagsins og leiðir í ljós, að þrjú af hverjum fjórum eða 72% af þeim börnum sem særast eða deyja á hættulegustu átakasvæðum heims verða fyrir sjálfsmorðssprengjum, jarðsprengjum, ósprungnum sprengjum, loftárásum eða öðrum sprengiefnum.

Börn slasast á annan og hryllilegri hátt en fullorðnir af völdum sprengiefna og þau glíma oft við einkenni áfellastreituröskunar, þunglyndis, kvíða og víðáttufælni.

Greining samtakanna byggist á upplýsingum frá Sameinuðu þjóðunum um þau fimm átakasvæði í heiminum sem eru hvað hættulegust börnum; Nígeríu, Afganistan, Írak, Sýrland og Jemen.

Til að bregðast við þessu hrikalega ástandi og þeirri staðreynd að langvinn stríðsátök hafa rústað heilbrigðiskerfum þessara landa hafa Barnaheill – Save the Children, í samvinnu við Paediatric Blast Injury Partnership, gefið út handbók fyrir lækna og hjúkrunarfólk um meðhöndlun á börnum sem særst hafa af völdum sprengiefna. Í handbókinni eru einnig sérstakar leiðbiningar um hvernig draga megi úr sálrænum skaða barna sem meðhöndluð eru vegna meiðsla af völdum sprengiefna.

Árið 2017 særðust eða létust 7.364 börn í átökum í Afghanistan, Írak, Nígeríu, Sýrlandi og Jemen og áætlað er að 5.322 þeirra megi rekja til sprengiefna.

Börn eru ekki eingöngu í hættu þegar stríðsástand ríkir heldur einnig eftir að átökum lýkur eins og til að mynda í Úkraínu þar sem 220 þúsund börn voru í hættu vegna jarðsprengna í austurhluta landsins árið 2017.

Eftirfarandi ályktun var gerð í lok málþingsins í Haag:

Við skorum á allar ríkisstjórnir og vopnaða hópa að framfylgja og fara eftir alþjóðalögum, mannréttindaákvæðum, reglum og viðmiðum sem ætlað er að vernda börn. Við skuldbindum okkur, hver og eitt okkar og í sameiningu, til þess að stuðla að heimi þar sem:

  • Öll börn eru vernduð gegn því að deyja eða örkumlast.
  • Skólar og heilsugæslustöðvar eru svæði þar sem fólk nýtur friðar og verndar.
  • Hvert einasta barn er verndað gegn nauðgun og kynferðislegu ofbeldi.
  • Ekkert barn er þvingað til hermennsku.
  • Engin börn á ófriðarsvæðum eru numin á brot, haldið föngnum eða eru á vergangi.
  • Engu barni er neitað um mannúðaraðstoð þar sem átök ríkja.
  • Fylgst er með brotum gegn réttindum barna í átökum, þau tilkynnt og gripið til aðgerða.
  • Þeir sem brjóta gegn börnum og líta fram hjá eða fyrirskipa ofbeldi gegn börnum á átakasvæðum eru sóttir til saka og látnir sæta ábyrgð fyrir gjörðir sínar.
  • Öll börn sem skaðast eða verða fyrir öðrum áhrifum af stríðsátökum fái hjálp og stuðning til að takast á við slíkt, ná sér og byggja sig upp.
  • Öll börn sem þolað hafa stríðshörmungar, þar með talin flóttabörn og vegalaus börn, hafi aðgang að gæðamenntun.