Átta ár frá upphafi Sýrlandsstríðsins 15. mars

Í könnun Barnaheilla – Save the Children kemur fram að þriðjungur barna í Sýrlandi upplifir óöryggi „alltaf eða oft“  og börnin eru hrædd og sorgmædd. Þau krefjast friðar og vilja komast aftur í skóla.

Eftir átta ára átök og stríð segist þriðjungur sýrlenskra barna „alltaf eða oft“ finna fyrir óöryggi, neyð og einsemd. Þetta er meðal niðustaðna könnunar sem kynntar eru í nýrri skýrslu Barnaheilla – Save the Children, A Better Tomorrow: Syria’s Children Have Their Say.

Börn í fjórum héruðum í Sýrlandi, sem hafa orðið illa úti í stríðinu, svöruðu spurningalista auk þess sem umræður fóru fram í rýnihópum.

Helmingur þeirra barna sem tóku þátt í könnuninni taldi ofbeldi, aðskilnað frá fjölskyldu, eyðileggingu heimilis og innviða auk skort á grunnþjónustu, svo sem menntun og heilsugæslu „mjög alvarlegan“ vanda fyrir þau sjálf og samfélagið. Þrátt fyrir þetta er meirihluti barnanna vongóður um framtíðina og hlutverk sitt í að skapa betra Sýrland svo lengi sem friður og stöðugleiki ríkir. Frá því stríðið í Sýrlandi hófst, fyrir átta árum, hafa fæðst fjórar milljónir barna sem flest þekkja ekkert annað en stríð. Könnunin veitir örlitla innsýn í reynslu barna og þörf er á frekari aðstoð og ráðgjöf til að hægt sé að greina þörf allra barna og samfélaga þeirra fyrir endurhæfingu og bata.

Þann 15. mars verða átta ár frá upphafi átakanna og á þeim tímamótum er meira en helmingur Sýrlenskra barna í þörf fyrir mannúðaraðstoð og þriðjungur gengur ekki í skóla. Mörg börn búa á svæðum þar sem grunnþjónusta er næstum engin og innviðir sem þau treysta á eru í rúst. Í það minnsta 2,5 milljónir barna eru vegalaus eða hafa orðið viðskila við fjölskyldur sínar.

Í könnunum meðal rúmlega 365 barna í héruðunum Idlib, Aleppo, al-Raqqa og al-Hassakeh kom fram að:

  • Ofbeldi, óöryggi, ófullnægjandi húsnæði og skortur á grunnþjónustu væru helstu áskoranir í þeirra samfélögum.
  • Aðskilnaður frá fjölskyldu og upplausn fjölskyldu væri mikið áhyggjuefni. Í ljósi fjölda barna sem hafa orðið viðskila við fjölskyldur sínar eða eru vegalaus sagði meirhluti barnanna (98%) að samvistir við fjöslylduna væru mjög mikilvægar fyrir þeirra lífshamingju.
  • Endurreisn skóla og aðgangur að menntun hefur grundvallarþýðingu fyrir framtíð Sýrlands. Þriðjungur Sýrlenskra barna gengur ekki í skóla og börnin sem tóku þátt í könnuninni lýstu áhyggjum sínum af að vera ómenntuð.
  • Meirihluti barnanna í könnuninni eru bjartsýn á framtíðina og hlutverk sitt í að byggja upp betra Sýrland, en meginkrafa þeirra til valdhafanna og alþjóðasamfélagsins er að vernda börn og stöðva átökin.

Lina*, 13 ára, sem flúði átökin í Austur-Ghouta og býr nú í Idlib: „Stríðið hefur hrifsað allt frá börnum og skilið okkur eftir allslaus; engin menntun, engin framtíð. Foreldrar mínir voru drepnir fyrir fjórum árum þegar sprengja lenti á húsinu okkar. Eftir að ég missti þau vonaði ég að ég færi á eftir þeim en guð hafði önnur áform. Ég vil að stríðið hætti svo við getum farið aftur heim og endurreist landið okkar. Hvað mig sjálfa snertir þá vil ég ekkert annað í heimi en að geta menntað mig. Ég vona að heimurinn sjái okkur og hjálpi okkur.“

Sara, 14 áraSara*, 14 ára, særðist í loftárás sem eyðilagði heimili hennar í Deir Ezzor. Hún býr nú í búðum fyrir vegalausa í Sýrlandi þar sem hún tók þátt í könnuninni. Hún sagði: „Áður en stríðið byrjaði átti ég frábært líf og var hamingjusöm með fjölskylu minni. Ég er ekki lengur hamingjusöm. Líf mitt og stríðið erum eitt. Í hvert sinn sem ég heyri í flugvél verð ég svo hrædd. Ég held að það sé mikilvægt að spyrja okkur börnin um líf okkar. Það er erfitt að ímynda sér framtíð landsins þegar við eigum ekki einu sinni heimili en ég er samt bjartsýn. Ég vil segja við börn í heiminum að fara ekki langt frá fjölskyldum sínum og ekki leika sér með neitt sem er hættulegt.“ (Myndin til hægri er af Söru. Hún  býr í búðum fyrir heimilislausa með fjölskyldu sinni og þar hefur hún eignast nýja vini. Hún elskar fótbolta.)

Helle Thorning-Schmidt, framkvæmdatjóri Barnaheilla – Save the Children:

„Mörg Sýrlensk börn hafa vaxið úr grasi án þess að þekkja nokkuð annað en stríð og þau hafa séð og reynt hluti sem ekkert barn ætti að þurfa að upplifa. Sýrlensku börnin sem við töluðum við eru óörugg og ein á báti vegna aðskilnaðar frá fjölskyldum sínum.

Alþjóðasamfélagið verður að draga til ábyrgðar alla þá sem hafa framið gróft ofbeldi gegn börnum í Sýrlandi í þessu grimmilega stríði.

Við hvetjum leiðtogana, sem hittast í Brussel í þessari viku, til að hlusta á börnin í Sýrlandi. Þrátt fyrir allar þær hörmungar og raunir sem þau hafa gengið í gegnum eru þau bjartsýn og staðráðin í að skapa betri framtíð. Þau krefjast friðar, stöðugleika og menntunar – og það er í höndum þessa fundar á vegum alþjóðasamfélagsins að stuðla að því að svo verði.“

Barnaheill – Save the Children skora á fulltrúa á ráðstefnunni í Brussel að koma með opinbera yfirlýsingu um að styðja starf sem stuðlar að bata og endurhæfingu barna í Sýrlandi og tryggja nægt fjármagn í lykilþætti starfsins. Aðilar að átökunum og alþjóðasamfélagið verða einnig að taka haldbær skref til að koma á friði og vernda börn og tryggja jafnan aðgang að lífnauðsynlegum grunnþörfum.

*Nöfnum hefur verið breytt vegna persónuverndarsjónarmiða.