Árás á hjálparskip undirstrikar bágar aðstæður barna á Gaza-svæðinu

20091116_indexBarnaheill – Save the Children lýsa yfir hneykslun og sorg vegna mannfalls um borð í hjálparskipum samtakanna Frjáls Palestína (Free Gaza Movement). Þessi harmleikur undirstrikar hversu brýnt er að rjúfa herkvína um Gaza. Vegna hennar búa 780 þúsund börn í Palestínu við skort á matvælum, vatni og óviðunandi heilbrigðisþjónustu.

Barnaheill – Save the Children lýsa yfir hneykslun og sorg vegna mannfalls um borð í hjálparskipum samtakanna Frjáls Palestína (Free Gaza Movement). Þessi harmleikur undirstrikar hversu brýnt er að rjúfa herkvína um Gaza. Vegna hennar búa 780 þúsund börn í Palestínu við skort á matvælum, vatni og óviðunandi heilbrigðisþjónustu.

Frá árinu 2007 hafa yfirvöld í Ísrael sett mjög þröngar skorður á flutninga með varning og ferðir fólks inn og út af Gaza-svæðinu. Þrír fjórðu þeirrar 1,5 milljóna Palestínumanna sem þar búa verða því að reiða sig á matvælaaðstoð til að komast af.

Jasmine Whitbread, framkvæmdastjóri alþjóðasamtaka Barnaheilla – Save the Children: „Börn á Gaza-svæðinu búa við hungur vegna hindrana á því að flytja matvæli inn á svæðið. Þau vaxa úr grasi án menntunar vegna þess að skólabyggingar hafa orðið fyrir skemmdum sem ekki er hægt að gera við þar sem ekki fæst byggingarefni. Sum börn deyja jafnvel þar sem þau fá ekki að yfirgefa Gaza-svæðið til að fá þá heilbrigðisþjónustu sem þau þarfnast. Það eru börnin sem líða mest fyrir þessa herkví.“

Þar til herkví um Gaza-svæðið verður aflétt, er heilbrigði og sálrænni heilsu hundruð þúsunda palestínskra barna sem búa á svæðinu stefnt í voða. Það gæti haft í för með sér skelfilegar afleiðingar fyrir framtíð svæðisins.

„Ísrael verður að heimila óheftan flutning á varningi og ferðir fólks inn og út af Gaza-svæðinu. Það er á ábyrgð alþjóðasamfélagsins að tryggja að þessari herkví ljúki þegar í stað. Líf hundruða þúsunda barna eru því háð,“ bætir Jasmine Whitbread við.

Barnaheill – Save the Children hafa unnið á Gaza-svæðinu frá árinu 1973 við að tryggja matvæli, vatn, heilbrigðisþjónustu, menntun og sálfræðilegan stuðning við börn á svæðinu. Til að styðja við starf samtakanna á Gaza-svæðinu, má hringja í söfnunarsíma þeirra; 904 1900 eða 904 2900, eða gerast heillavinur.