Barnaheill afhentu forsætisráðherra áskorun um að útrýma fátækt barna

Starfsfólk Barnaheilla, Talsmenn barna á alþingi og forsætisráðherra.
F.v. Oddný Harðardóttir, Þóra…
Starfsfólk Barnaheilla, Talsmenn barna á alþingi og forsætisráðherra.
F.v. Oddný Harðardóttir, Þóra Jónsdóttir, Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir, Berglind Sigmarsdóttir, Margrét Júlía Rafnsdóttir, Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir, Katrín Jakobsdóttir, Gísli Ólafsson, Ásthildur Lóa Þórsdóttir, Guðmundur Ingi Kristinsson og Diljá Mist Einarsdóttir

Barnaheill – Save the Children á Íslandi afhentu í dag Katrínu Jakobsdóttur, forsætisráðherra, undirskriftarlista þar sem skorað er á íslensk stjórnvöld að móta stefnu og aðgerðaráætlun til að uppræta fátækt á meðal barna á Íslandi. Afhendingin fór fram í Kringlu í Alþingishúsinu kl 13:30. Auk forsætisráðherra voru talsmenn barna á Alþingi einnig viðstaddir viðburðinn. Mikill fjöldi fólks skrifaði undir áskorunina en 13,1% barna eða um 10.000 börn eiga hættu á að búa við fátækt og félagslega einangrun á Íslandi eins og kemur fram í skýrslu Barnaheilla um fátækt sem kom út í marsmánuði. Önnur Evrópuríki hafa markað stefnu í málaflokknum og brýnt er að Ísland geri það líka svo hægt sé að gera aðgerðaáætlun til að útrýma fátækt. Tryggja þarf öllum börnum á Íslandi jöfn tækifæri til heilsu, menntunar, verndar og þátttöku.

,,Við viljum ekki að neitt barn búi við fátækt,” sagði Katrín Jakbósdóttir, forsætisráðherra, þegar hún tók við undirskriftunum. ,,Næstu skref er að ég mun leggja þetta fyrir á næsta ríkisstjórnarfundi.”

Frá árinu 2013 hafa Barnaheill í samstarfi við Evrópuhóp Barnaheilla – Save the Children kortlagt málefni barna sem búa við fátækt og fjórar skýrslur verið gefnar út. Sú nýjasta kom út í mars; Tryggjum framtíð barna; hvernig COVID-19, aukinn framfærslu kostnaður og áskoranir vegna lofslagsbreytinga hafa áhrif á börn sem búa við fátækt.

,,Fátækt er brot á mannréttindum barna,” sagði Margrét Júlía Rafnsdóttir, verkefnastjóri innlendra verkefna hjá Barnaheillum við afhendingu undirskriftanna. ,,Þau börn sem búa við fátækt fá ekki notið til fullnustu þeirra réttinda sem þeim ber samkvæmt barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna sem er lögfestur á Íslandi. Þeim er mismunað um þau réttindi vegna efnahagslegrar stöðu foreldra sinna, sem þau bera enga ábyrgð á. Barn sem býr við fátækt missir af tækifærum sem önnur börn hafa. Barn sem býr við fátækt er líklegra til að búa við fátækt sem fullorðinn einstaklingur.”

Barnaheill hafa í gegnum tíðina beitt sér fyrir ýmsum málum til að stuðla að jöfnuði á meðal barna á Íslandi. Þar má nefna gjaldfrjálsa tannlæknaþjónustu og gjaldfrjáls námsgögn með góðum árangri. Að þessu sinni, með afhendingu undirskriftarlista, hvetja Barnaheill stjórnvöld að marka stefnu og gera áætlun um að uppræta fátækt á meðal bara fyrir árið 2030. Þannig er stuðlað að betra og jafnara samfélagi fyrir alla.