Barnaheill ávörpuðu Sameinuðu þjóðirnar

Í gær, þriðjudaginn 7. desember, fór fram fundur þar sem fulltrúar mannréttindasamtaka, sem sendu frá sér skýrslu vegna yfirstandandi allsherjarúttektar Sameinuðu þjóðanna á stöðu mannréttindamála á Íslandi, UPR (Universal periodic report) fengu tækifæri til að ávarpa fulltrúa ríkja SÞ og gefa yfirlýsingu um það sem brýnast er að lagfært verði á Íslandi sem snertir mannréttindi. Samtökin sem um ræðir eru Mannréttindaskrifstofa Íslands, Þroskahjálp, Kvenréttindafélag Íslands, Þjóðkirkjan og Barnaheill.

Fulltrúi Barnaheilla, Þóra Jónsdóttir, gaf eftirfarandi yfirlýsingu um réttindi barna:

Virðulegu fundargestir

Ég heiti Þóra Jónsdóttir og er verkefnastjóri innlendra verkefna hjá Barnaheillum – Save the Children á Íslandi.

Fyrir hönd samstarfshóps íslensku félagasamtakanna sem sendu frá sér sameiginlega skýrslu í júlí vegna allsherjarúttektar SÞ, vil ég segja þetta um réttindi barna á Íslandi um þessar mundir:

Of mörg börn á Íslandi búa við slæmar aðstæður, fjárhagslega og félagslega.

Ísland er ríkt land þar sem aðstæður er góðar og almenn velsæld ríkir. Því ætti ekkert barn að búa við fátækt á Íslandi. Afar áríðandi er að gerð verði stefna og áætlun um að eyða fátækt meðal barna á Íslandi. Í nýlegri skýrslu frá Barnaheillum – Save the Children kemur fram að það eigi að vera forgangsmál á meðal allra Evrópusambandsríkja og einnig Íslands að eyða fátækt og félagslegri einangrun. Samstarfshópurinn styður við þau orð sem í skýrslunni birtast og skorar á íslenska ríkið að setja sér heildræn stefnumarkmið til að takast á við fátækt meðal barna með raunhæfum úrræðum og félagslegri þjónustu til skemmri og lengri tíma til að þjóna núlifandi og framtíðar kynslóðum barna.

Á undanförnum tveimur árum hefur átt sér stað áhugaverð þróun á vegum Barnamálaráðuneytisins þar sem stefnt er að því að skapa nýtt kerfi til að auka farsæld meðal barna á Íslandi, þar sem áhersla er lögð á snemmtæka íhlutun og aukin gæði í þjónustu við börn. Þar er gert ráð fyrir að allir þjónustuaðilar sem þjónusta barn tengist og eigi samstarf um ákvarðanir og samhæfi aðgerðir í málum barnsins og að barnið eigi að vera í miðju samtalsins og taka þátt í því ásamt foreldrum sínum. Samstarfshópurinn skorar á Alþingi og ráðuneytin að innleiða þessa nýju sýn og stefnu á nýsettu þingi. Afar nauðsynlegt er að tryggja nægilegt fjármagn til að hægt verði að framkvæma þær aðgerðir sem ákveðið hefur verið að ráðast í með lögum um samþættingu þjónustu í þágu farsældar barna sem og í þingsályktunartillögu um Barnvænt Ísland og framkvæmd barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna. Stjórnvöld þurfa að fjárfesta í börnum og forvörnum í dag því það er besta fjárfestingin fyrir samfélagið til framtíðar.

Enn fremur er áríðandi að fræða börn, foreldra og alla sem tengjast börnum með einhverjum hætti um mannréttindi barna, rétt þeirra til að vera vernduð gegn ofbeldi, rétt þeirra til þátttöku og rétt þeirra til að vera ekki mismunað. Mikilvægt er að leggja áherslu á að framleiða og dreifa fræðsluefni um mannréttindi barna.

Takk fyrir.

Yfirlýsinguna á ensku má finna hér.

Í lokin fengu samtökin tækifæri til að bera fram lokaathugasemdir og bætti Þóra eftirfarandi við:

Kærar þakkir fyrir að standa að fundinum og bjóða okkur til þátttöku.

Ég vil hvetja þau ríki sem veita munu íslenska ríkinu leiðsögn og athugasemdir, að kalla eftir skýrri og metnaðarfullri innleiðingu á barnasáttmálanum á Íslandi og að viðauki við samninginn um kæruferli fyrir börn verði fullgiltur án tafar. Jafnframt að fyrirhugaðar kerfisbreytingar í þjónustu og í þágu farsældar barna sem samþykktar hafa verið á Alþingi skuli innleiddar skipulega og markvisst.

Mikilvægt er að hugað verði að börnum sem hingað leita eftir alþjóðlegri vernd, ásamt fjölskyldum sínum. Mál þeirra þarf að skoða með hagsmuni barnanna sjálfra í huga og taka ákvarðanir út frá þeirra sjálfstæðu stöðu en ekki samkvæmt stöðu foreldra þeirra. Allar ákvarðanir sem varða börn þarf að taka með það sem þeim sjálfum er fyrir bestu að leiðarljósi.

Við fögnum því að ný ríkisstjórn hefur ákveðið að áfram verði starfrækt sérstakt ráðuneyti barna og hún hyggist halda áfram þeirri jákvæðu þróunarvinnu sem átt hefur sér stað á undangengnu þingi á málefnum barna.

Takk fyrir.

Hér má finna lokaorðin á ensku.

Smelltu á myndina hér að neðan til þess að skoða skýrslu mannréttindasamtakanna frá því í júlí.