Barnaheill hafa undirritað rammasamning við Utanríkisráðuneyti

Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir, Utanríkisráðherra og Erna Reynisdóttir, framkvæmdastjóri Barnaheilla.
Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir, Utanríkisráðherra og Erna Reynisdóttir, framkvæmdastjóri Barnaheilla.

Barnaheill – Save the Children á Íslandi undirrituðu í gær rammasamning við utanríkisráðuneytið á sviði mannúðaraðstoðar og þróunarsamvinnu. Rammasamningurinn veitir Barnaheillum aukinn fyrirsjáanleika í starfi sínu sem auðveldar skipulagningu verkefna og eykur viðbragðsflýti neyðaraðstoðar.

Barnaheill hafa, með stuðningi frá utanríkisráðuneytinu, unnið að þróunarsamvinnu í Síerra Leóne frá árinu 2021 og stefna á að hefja þróunarsamvinnu við Líberíu seinna á þessu ári. Samtökin stefna að því að hefja þróunarsamvinnu í Lýðstjórnarlýðveldinu Kongó á þessu ári þar sem lögð verður áhersla á götubörn. Barnaheill hafa einnig veitt neyðaraðstoð í Lýðstjórnarlýðveldinu Kongó frá árinu 2020 þar sem áhersla er lögð á vernd barna í austurhluta landsins sem er mikið átakasvæði. Að endingu koma samtökin til með að auka framlög til viðbragðssjóðs alþjóðasamtaka Barnaheilla – Save the Children en veitt eru framlög úr sjóðnum til að bregðast við neyð sem upp kemur vegna átaka eða náttúruhamfara. Barnaheill leggja áherslu á forvarnir og viðbrögð gegn ofbeldi á börnum í öllu sínu starfi.

 Hjálparstarf kirkjunnar, Rauði krossinn á Íslandi og SOS Barnaþorpin á Íslandi undirrituðu rammasamning við utanríkisráðuneytið á sama tíma. Sjá nánar hér.