Barnaheill og Geir Gunnlaugsson gera með sér samning

Geir Gunnlaugsson, Erna Reynisdóttir framkvæmdastjóri Barnaheilla og Guðrún Helga Jóhannsdóttir, aðs…
Geir Gunnlaugsson, Erna Reynisdóttir framkvæmdastjóri Barnaheilla og Guðrún Helga Jóhannsdóttir, aðstoðarframkvæmdastjóri og leiðtogi erlendra verkefna.

Barnaheill – Save the Children á Íslandi og Geir Gunnlaugsson, prófessor í Hnattrænni heilsu við Háskóla Íslands hafa undirritað samning varðandi úttekt á mannúðarverkefni Barnaheilla í Suður Kívu í Lýðstjórnarlýðveldinu Kongó. Geir mun ferðast til Suður-Kívu í ágúst og taka út verkefni Barnaheilla sem snýr að því að vernda börn gegn ofbeldi. Verkefnið var til sex mánaða og er nýlokið en mun hefjast að nýju í ágúst með áframhaldandi stuðningi utanríkisráðuneytisins.

Markmið verkefnisins er að vernda börn gegn ofbeldi, misnotkun, útskúfun og vanrækslu auk þess að vernda börn fyrir því að vera neydd til að ganga til liðs við vígahópa og styðja við þau börn sem hafa þegar verið neydd til þess. Verkefnið miðar að því að ná þessu fram með því að styðja við barnvæn svæði og samfélagslega leidda barnavernd og bjargráð. Einnig er í verkefninu unnið með leiðtogaþjálfunina BellaNet sem hefur það að markmiði að styðja við og efla stúlkur en sú aðferðafræði nýtist vel sem forvörn gegn kynferðisofbeldi.