Barnaheill og Hafnafjarðarbær skrifa undir samstarfssamning

Á myndinni eru Berglind Sigmarsdóttir, framkvæmdastjóri Barnaheilla, Fanney Dóróthe Halldórsdóttir f…
Á myndinni eru Berglind Sigmarsdóttir, framkvæmdastjóri Barnaheilla, Fanney Dóróthe Halldórsdóttir fræðslustjóri Hafnarfjarðar og Linda Hrönn Þórisdóttir leiðtogi innlendra verkefna Barnaheilla.

Hafnarfjarðarbær og Barnaheill – Save the Children á Íslandi hafa gert nýjan samstarfsamning varðandi þjónustu og fræðslu fyrir starfsfólk í leik- og grunnskólum Hafnarfjarðarbæjar sem gildir út skólaárið 2023/2024. Kjarninn í samstarfinu er forvarnanámskeiðið Verndarar barna sem eykur hæfni starfsfólks bæjarins við að greina einkenni ofbeldis og vinna að forvörnum gegn meðal annars kynferðislegu ofbeldi á börnum og ungmennum auk fræðslu um eigin mörk í samskiptum við börn og ungmenni. Rúmlega 1000 starfsfólk Hafnarfjarðarbæjar hafa fengið fræðsluna frá árinu 2009 en þá hófst formlegt samstarf um þetta mikilvæga forvarnarverkefni. Árangur samstarfsins þessi ár endurspeglast einna helst í auknu öryggi starfsfólks og réttum viðbrögðum þegar spurningar vakna og upp koma mál sem kalla á ráðgjöf og aðstoð til handa hafnfirskum fjölskyldum.

Áhersla lögð á farsæld allra barna í barnvænu sveitarfélagi

Á tímabilinu verður lögð sérstök áhersla á að fræða skólastjórnendur, deildarstjóra og sérkennslustjóra í leikskólum Hafnarfjarðarbæjar. Fræðslan stendur nýju starfsfólki grunnskólanna til boða í ágúst sem liður í móttökuáætlun og undirbúningi fyrir nýtt skólaár. Einfölduð og styttri útgáfa af fræðslunni verður jafnframt í boði á tímabilinu fyrir starfsfólk íþróttahúsa, þjálfara íþróttahreyfingarinnar og stjórnir íþróttafélaga. Fræðslan miðar að því að þátttakendur fræðist og þjálfist í að fyrirbyggja, þekkja og bregðast við hvers kyns ofbeldi þ.m.t. kynferðisofbeldi af festu og ábyrgð.

Barnaheill – Save the Children á Íslandi eru hluti af alþjóðasamtökunum Save the Children sem vinna að réttindum og velferð barna um allan heim með barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna og heimsmarkmiðin að leiðarljósi. Megináhersla er lögð á vernd gegn ofbeldi á börnum og er Verndarar barna eitt stærsta verkefni Barnaheilla. Hafnarfjarðarbær leggur áherslu á farsæld allra barna og vinnur að því að innleiða Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna inn í alla starfsemi sveitarfélagsins. Með öflugu samstarfi við fjölbreytta fagaðila og skólasamfélagið í heild stuðlar Hafnarfjarðarbær að meðvitaðra og öruggara umhverfi og barnvænna sveitarfélagi.