Barnaheill og Menntamálastofnun gefa út nýtt námsefni gegn kynferðisofbeldi á börnum

Barnaheill - Save the Children á Íslandi hafa í samstarfi við Menntamálastofnun gefið út námsefnið Líkami minn tilheyrir mér. Um er að ræða kennsluefni gegn kynferðisofbeldi á börnum og er fyrir leikskólastig og 1. - 4. bekk grunnskóla. Kennsluefnið samanstendur af fjórum teiknimyndum sem leiðir áfram fræðsluna. Auk þess eru samtalsspjöld sem skapa umræður á meðal barnanna um viðfangsefnið og kennsluleiðbeiningar fyrir kennara.

Markmið kennsluefnisins er að veita börnum meiri þekkingu á líkama sínum og mikilvægi þess að virða og setja sér mörk í samskiptum. Með Líkami minn tilheyrir mér fá börn þau skilaboð að kynferðisofbeldi er aldrei börnunum sjálfum að kenna og þau hvött til að leita til einhverra fullorðinna sem þau treysta. Efnið kom fyrst út hjá Barnaheillum - Save the Children í Noregi, Redd barna.

Forvarnir gegn kynferðisofbeldi á börnum er eitt af helstu verkefnum Barnaheilla. Öll börn eiga rétt á vernd gegn ofbeldi eins og fram kemur í Barnasáttmálanum og leggja samtökin mikla áherslu á að reyna að koma í veg fyrir þá skelfilegu reynslu fyrir börn að verða fyrir ofbeldi. Í þeim tilfellum sem ofbeldið hefur átt sér stað er mikilvægt að þekkja einkenni þess og hvernig best er að bregðast við því og veita börnum þann stuðning sem þau þurfa á að halda.

Barnaheill bjóða upp á fjölbreytta nálgun í málaflokknum kynferðisofbeldi gegn börnum því auk kennsluefnisins Líkami minn tilheyrir mér bjóða samtökin upp á verkefnin Verndarar barna, SKOH! – Hvað er ofbeldi?, Ábendingalínuna og bækurnar Líkaminn minn sem dreifð er í ungbarnaskoðun um land allt og Einkastaðir líkamans. Þá bjóða Barnaheill upp á ráðgjöf um hin ýmsu málefni sem snúa að réttindum barna, meðal annars um kynferðisofbeldi.