Barnaheill – Save the Children fagna sögulegum alþjóðlegum samningi um flóttamenn

Þann 12. nóvember sl. fengu 218 börn í Lahi í Jemen skólatöskur að gjöf fyrir tilstilli Barnaheilla …
Þann 12. nóvember sl. fengu 218 börn í Lahi í Jemen skólatöskur að gjöf fyrir tilstilli Barnaheilla – Save the Children. Skólinn er staðsettur í fimm bráðabirgðatjöldum og kennararnir vinna í sjálfboðavinnu.
Ljósmynd: Noora Nasser/Save the Children

Barnaheill – Save the Children fagna því að Allsherjarþing Sameinuðu þjóðanna samþykkti í gær alþjóðlegan samning um flóttamenn. Átök og ofsóknir hafa neytt milljónir barna til að flýja heimili sín og glata með því tækifærum um framtíð sem hvert barn verðskuldar. Þetta sögulega skjal ryður brautina í þá átt að ríki heims deili enn frekari ábyrgð á flóttamannavandanum. Það mun veita börnum á flótta vernd með því að:

  • tryggja árangursríkar leiðir til að bjarga mannslífum og tryggja aðgang að viðeigandi umönnun
  • tryggja sömu vernd fyrir börn þvert á landamæri
  • bæta framboð og gæði menntunar
  • tryggja að það sem er börnum fyrir bestu sé ávallt í forgrunni þegar tekin er ákvörðun um framtíð þeirra

Yfirgnæfandi meirihluti aðildarríkjanna 181 greiddu atkvæði með því að samningurinn yrði samþykktur og rennur það styrkum stoðum undir alþjóðlega samvinnu. Barnaheill – Save the Children lýsa þó vonbrigðum með að Bandaríkin og Ungverjaland greiddu atkvæði gegn samningnum en vona þó að þessi ríki muni taka þátt í að styðja við innleiðingu hans.

Meira en helmingur af 25,4 milljónum flóttamanna heims eru börn. Ef alþjóðleg hjálp og stuðningur við lönd sem hýsa marga flóttamenn er ekki betur skipulagður munu mörg þessara barna ekki njóta umönnunar eða grunnþjónustu. Mörg flóttabarnanna, sem þegar hafa misst heimili sín, munu heldur ekki geta notið menntunar. Fjórar milljónir flóttabarna sækja ekki skóla og er það aukning um hálfa milljón barna á aðeins einu ári.

Helle Thoring-Schmidt, framkvæmdastjóri Save the Children:

„Átök og ofsóknir hafa neytt milljónir barna til að flýja heimili sín. Þetta sögulega samkomulag ryður brautina í átt að enn frekari samábyrgð og samvinnu milli landa. Það mun færa flóttabörnum vernd og þá framtíð sem þau eiga rétt á.

Nú þegar Samningurinn um flóttamenn hefur verið gerður verða allir að leggjast á eitt um að innleiða hann að fullu.

Það sem flóttabörn segja okkur að þau þrái einna helst er menntun. Svo að við erum afar ánægð með að samningurinn kveði á um að öll flóttabörn geti gegnið í skóla aðeins fáeinum mánuðum eftir að hafa farið yfir landamæri og að fjármagn verði tryggt svo að þetta verði að veruleika, sér í lagi stuðningur við ríki sem hýsa flóttafólk. Við megum engan tíma missa svo að þetta verði að veruleika fyrir flóttabörn.“