Barnaheill – Save the Children hvetja Evrópuþjóðir til að taka við fleiri flóttabörnum frá Grikklandi

Aðstæður í mörgum flóttamannabúðum eru hörmulegar.
Aðstæður í mörgum flóttamannabúðum eru hörmulegar.

Flóttamannafulltrúi Evrópusambandsins (ESB), Ylva Johansson, heimsótti flóttamannastaði í Grikklandi þann 12. mars s.l. Markmið hennar með heimsókninni var að sjá hvernig bæta megi aðstæður flóttabarna þar í landi og breyta fyrirkomulagi fólksflutninga frá Grikklandi til annarra Evrópuríkja. Í maí mun Johansson kynna málefni flóttabarna frá Grikklandi á ráðstefnu og fara yfir aðstæður þeirra þar í landi.

Um 42 þúsund flóttafólks situr nú fast í yfirfullum flóttamannabúðum sem staðsettar eru á eyjum fyrir utan Grikkland. Fólkið býr við ómannúðlegar aðstæður þar sem andleg og líkamleg heilsa fer versnandi. Yfir 35 þúsund flóttabarna eru í Grikklandi, bæði á eyjum og á meginlandinu en um 5000 þeirra eru fylgdarlaus, án foreldra eða forráðamanna.

Tugir þúsunda flóttafólks, þar á meðal börn, hafa safnast saman við landamæri Grikklands og Tyrklands á síðastliðinni viku. Margt af þessu fólki sefur undir berum himni, við erfiðar aðstæður, þar sem aðgangur að grunnþjónustu er mjög takmarkaður. Matur og vatn er af skornum skammti og fjölskyldur með ung börn skortir nauðsynlegar birgðir eins og barnamat og bleyjur.

Forstöðumaður Evrópuskrifstofu Save the Children í Brussel, Anita Bay, segist fagna aðgerðum ESB.

Við fögnum því að flóttabörn í Grikklandi hafi fangað athygli ESB. Við hvetjum öll aðildarríki ESB til að taka við fleiri fylgdarlausum börnum frá Grikklandi og veita þeim öryggi. Það er nauðsynlegt að aðildarríkin komi á sameiginlegri lausn um hvernig eigi að móta langtímaaðgerðir fyrir þau 42 þúsund sem búa við ómannúðlegar aðstæður á eyjum Grikklands, án matar, skjóls eða heilbrigðisþjónustu. Langtímaaðgerðir ættu að fela í sér forgangskerfi um hvernig eigi að skipta ábyrgð á milli aðildarríkjanna. Save the Children hafa stutt flutning flóttabarna frá Ítalíu og eru reiðubúin að leggja sitt af mörkum við að aðstoða með flutning flóttabarna frá Grikklandi.

Bay telur að Evrópusambandið sé að bregðast hlutverki sínu sem alþjóðlegur verndari flóttabarna. 

Við höfum miklar áhyggjur af því hvernig Grikkland og Evrópusambandið hafa komið fram við flóttafólk í Grikklandi. Skýrslur sýna að flóttabörn eru jafnvel lokuð inni og flutt úr landi án þess að fá tækifæri til að mál þeirra sé sett í viðeigandi ferli. Þau verða fyrir ofbeldi og eru jafnvel beitt ofbeldi af hernum við landamæri. Þetta hefur sýnt að Evrópusambandið hefur brugðist hlutverki sínu að vernda mannréttindi barna.

Bay vonar að nú verði gripið til aðgerða og að Evrópuríkin grípi til nauðsynlegrar samvinnu. 

Réttur til hælis er grundvallaréttur sem er skrifaður bæði í Genfarsáttmálann og stofnsáttmála Evrópusambandsins. Við vonum að heimsókn Johanson til Grikklands hrindi af stað mannúðlegri samvinnu Evrópuríkja þar sem aðgerðir um vernd flóttafólks sé sett í forgang.