Barnaheill - Save the Children á Íslandi fá hálfa milljón króna frá Pokasjóði

Barnaheill – Save the Children á Íslandi hlutu í dag 500.000 krónur úr Pokasjóði vegna verkefnisins Netið og vernd barna gegn kynferðislegu ofbeldi. report_isl

report_islBarnaheill – Save the Children á Íslandi hlutu í dag 500.000 krónur úr Pokasjóði vegna verkefnisins Netið og vernd barna gegn kynferðislegu ofbeldi. 

Samtökin hafa frá árinu 2001 tekið þátt í alþjóðlega verkefninu „Stöðvum barnaklám á Netinu“. Verkefnið skiptist í vitundarvakningu, hjálparlínu og ábendingalínu en markmið þess er að vekja athygli almennings, lögreglu, löggjafans, netþjónustuaðila, barnaverndaryfirvalda og fleiri aðila á þætti Netsins í kynferðislegu ofbeldi gegn börnum. Einnig er því ætlað að þrýsta á íslensk stjórnvöld um að axla ábyrgð í þessum málaflokki hérlendis og á alþjóðavettvangi. Verkefnið hefur verið styrkt af „Safer Internet“ samstarfsáætlun Evrópusambandsins.


Barnaheill – Save the Children á Íslandi hafa verið í samstarfi við lögreglu, netþjónustur á Íslandi og samtökin INHOPE sem eru alþjóðasamtök ábendingalína. Sem fyrr segir er einn hluti verkefnisins ábendingalína, en á vef samtakanna er hnappur þar sem hægt er að senda inn nafnlausar ábendingar og nálgast upplýsingar um málefnið. Frá byrjun árs 2009, hafa þær ábendingar sem komið hafa til Barnaheilla – Save the Children á Íslandi farið beint til skoðunar hjá embætti Ríkislögreglustjóra. Barnaheill – Save the Children á Íslandi munu áfram hafa umsjón með ábendingalínunni og kynningu á henni. Þá verða samtökin einnig með vitundarvakningu, kynningar og ráðstefnur er varða þátt Netsins í kynferðislegu ofbeldi gegn börnum.

Baráttan fyrir öruggari netnotkun á Íslandi er mikilvæg og nauðsynlegt er að ná til barna, foreldra, skóla og annarra sem málið varðar.