Barnaheill styðja við þróun Barnahúss í Rúmeníu

Starfsfólk Barnarheilla á Íslandi og Barnaheilla í Rúmeníu við landamærastöðina Isaccea í Rúmeníu
Starfsfólk Barnarheilla á Íslandi og Barnaheilla í Rúmeníu við landamærastöðina Isaccea í Rúmeníu

Barnaheill – Save the Children á Íslandi hafa á síðustu mánuðum tekið þátt í samstarfi með systursamtökum sínum Barnaheillum – Save the Children í Rúmeníu (Salvati Copiii) vegna stofnunar og innleiðingar Barnahúss í Búkarest. Samstarfið ber yfirskriftina: Saman til verndar börnum sem hafa orðið fyrir kynferðisofbeldi – miðlun góðra starfsaðferða.

Árið 2022 settu Barnaheill í Rúmeníu á stofn Barnahús, að íslenskri fyrirmynd og vinna nú hörðum höndum að því að fá stjórnvöld í landinu til að nýta það vegna rannsóknaviðtala við börn sem grunur er um að hafi orðið fyrir kynferðisofbeldi.

Starfsfólk Barnaheilla – Save the Children á Íslandi heimsótti Barnahús í Rúmeníu dagana 18. - 22 september en markmið ferðarinnar var að kynnast starfi Barnaheilla í Rúmeníu er snýr að vernd gegn kynferðisofbeldi á börnum. Í ferðinni heimsótti starfsfólk einnig skrifstofu saksóknara í Búkarest sem sérhæfa sig í rannsókn og saksókn kynferðisbrota gegn börnum og skrifstofu félagsþjónustu og barnaverndar í Búkarest. Einnig ferðaðist starfsfólk að landamærastöð sem liggur við landamæri Úkraínu þar sem stöðugur flóttamannastraumur hefur verið frá Úkraínu síðan í febrúar 2022.

Starfsfólk Barnaheilla - Save the Children á Íslandi við mæðraathvarf á
landamærastöðinni Isaccea sem liggur við Úkraínu

Guðrún Helga Bjarnadóttir, verkefnastjóri innlendra verkefna hjá Barnaheillum segir mjög mikilvægt að fá að læra af öðrum þjóðum sem vinna að sama málaflokki og Barnaheill á Íslandi

,,Það var áhugavert að sjá eldmóð Barnaheilla í Rúmeníu í að vinna gegn kynferðisofbeldi á börnum og vinna með börnum sem hafa verið beitt því ofbeldi. Við sjáum fyrir okkur samstarf varðandi forvarnir, en þar höfum við gott verkfæri til að miðla,”

segir Guðrún Helga og vitnar í Verndara Barna, forvarnaverkefni Barnaheilla gegn kynferðisofbeldi á börnum.

Rúmenski hópurinn heimsótti Reykjavík

Dagana 24. - 26. október tók Barnaheill á Íslandi á móti fulltrúum Barnaheilla í Rúmeníu, ásamt fulltrúum barnaverndaryfirvalda sem og lögreglu og ákæruvalds í Búkarest. Starfsfólk Barnaheilla á Íslandi skipulagði heimsóknina. Rúmenski hópurinn átti fundi með Margréti K. Magnúsdóttur, forstöðumanni Barnahúss á Íslandi og Ástu Sigurðardóttur sálfræðingi og sérfræðingi í rannsóknarviðtölum við börn, Páli Ólafssyni, framkvæmdastjóra farsældarsviðs Barna- og fjölskyldustofu og að endingu með Kolbrúnu Benediktsdóttur, varahéraðssaksóknara.

Að sögn George Roman aðstoðarframkvæmdastjóra Barnaheilla – Save the Children í Rúmeníu var ferðin afar lærdómsrík og gagnleg. ,,Upplýsingarnar sem hópurinn hefur fengið um íslenska framkvæmd og notkun Barnahúss mun hjálpa til við innleiðingu hugmyndafræðinnar um Barnahús í Rúmeníu og verða okkur mikill innblástur til framtíðar.”

Samstarfið var styrkt af Active Citizens Fund í Rúmeníu.