Barnaheill taka undir ákall nemenda um viðbrögð og forvarnir gegn kynferðisofbeldi

Í ljósi þeirra atburða sem hafa átt sér stað innan framhaldsskólanna og á meðal nemenda þeirra á undanförnum dögum taka Barnaheill heilshugar undir ákall nemenda um að virk viðbragðsáætlun sé til staðar til þess að taka á kynferðisbrotum. Fræða þarf starfsfólk, kennara og stjórnendur um kynferðisofbeldi og hvernig eigi að bregðast við því. Þá er ekki síður mikilvægt að jafnréttis- og kynjafræði sé kennd á öllum skólastigum líkt og nemendur hafa gert kröfu um. Nauðsynlegt er að nemendur hafi þekkingu á mikilvægi þess að setja sér mörk og virða þau mörk sem aðrir setja sér í samskiptum auk þess að vita hvert hægt sé að leita. Barnaheill bjóða upp á eftirfarandi fræðslu sem á fullt erindi inn í skólastarf í kjölfar samfélagslegrar umræðu að undanförnu.

Verndarar barna er gagnreynt námskeið fyrir kennara, stjórnendur og annað starfsfólk skólanna um forvarnir gegn kynferðisofbeldi. Markmið námskeiðsins er að koma í veg fyrir kynferðisofbeldi og að slík mál séu þögguð. Áhersla er lögð á að þekkja vísbendingar og hvernig bregðast eigi við ef slík mál koma upp. Auk þess er farið í verklagsreglur og áætlanir fyrir skóla og stofnanir.

SKOH! Hvað er ofbeldi? Er fræðsla fyrir nemendur 10-17 ára um ofbeldi þar sem áhersla er lögð á kynferðisofbeldi og einelti. Markmið með fræðslunni er að börn og ungmenni öðlist þekkingu á hugtökunum ofbeldi, kynferðisofbeldi og einelti í öruggu og þægilegu umhverfi. Áhersla er á að æfa mörk og samþykki og hvert hægt er að leita.

Nánari upplýsingar veitir Ellen Calmon framkvæmdastýra Barnaheilla í síma 694 7864

Nánari upplýsingar um verkefnin Verndarar barna og SKOH! Hvað er ofbeldi?  veita:

Guðrún Helga Bjarnadóttir, verkefnastjóri Verndara barna verndararbarna@barnaheill.is

Þóra Björnsdóttir, verkefnastjóri SKOH! Hvað er ofbeldi? skoh@barnaheill.is

Sjá yfirlýsinguna í pdf hér