Barnaheill þakka fyrir ómetanlegan stuðning

Annað árið í röð seldu Barnaheill Heillagjafir fyrir jólin. Heillagjafir eru fjáröflunarleið til styrktar erlendu starfi Barnaheilla og stuðla að bættri heilsu, öryggi og menntun barna sem búa við erfiðar aðstæður í þeim löndum sem Barnaheill - Save the Children á Íslandi starfa; Lýðstjórnarlýðveldinu Kongó, Síerra Leóne og Líberíu.

Áhuginn fyrir því að gefa Heillagjafir í jólagjöf var sannarlega mikill og viljum við þakka öllum kærlega fyrir stuðninginn. Mest seldist af jarðhnetumauki, eða samtals 32.520 pokar, og verða pokarnir nú gefnir börnum sem þjást af vannæringu. Jarðhnetumaukið er mjög prótein- og kaloríuríkt og getur bjargað lífi barna og flýtt fyrir að þau nái heilsu á ný en um 10.000 börn deyja á hverjum degi vegna vannæringar.

Heillagjafir voru nýttar ýmist sem gjafabréf með jólapakkanum eða jafnvel sem jólakort. Heillagjafir eru einnig tilvaldar gjafir fyrir önnur tilefni eins og í mæðragjöf, í fermingapakkann, fyrir útskriftir og margt fleira.

Skoða úrval Heillagjafa hér