Barnaheill þakka Olís fyrir stuðninginn

Í vikunni lauk Haustsöfnun Barnaheilla þar sem armbönd voru seld um land allt. Hægt var að versla armböndin af sölufólki fyrir utan verslanir og í verslunarkjörnum, í vefverslun Barnaheilla og á völdum Olísstöðvum. Olís studdi einnig söfnunina með því að bjóða viðskiptavinum að bæta 300 krónum við hver innkaup. Barnaheill vilja þakka Olís kærlega fyrir stuðninginn í átakinu og öllum þeim sem keyptu armbandið eða bættu 300 krónum við innkaup. Alls safnaðist 821.000 krónur hjá Olís, sem rennur til þróunarverkefnis Barnaheilla í Síerra Leóne sem miðar að því að vernda börn gegn ofbeldi í skólum.

Saman hjálpumst við að í baráttunni gegn ofbeldi á börnum. Með ágóða armbandasölunnar geta Barnaheill gefið enn betur í varðandi forvarnir í Pujehun héraði og haft meiri áhrif á það að færri börn verði fyrir kynferðislegu-, líkamlegu- eða andlegu ofbeldi, færri stúlkur séu limlestar á kynfærum eða hnepptar í hjónabönd. Fyrir hönd þessara barna þökkum við ykkur!