Barnaheill þakka öllum sem hafa styrkt neyðarsöfnun Barnaheilla

María (28) er hér með dætrum sínum, Anastasíu (13) og Edu (2), en þær þurftu að flýja stríðið yfir t…
María (28) er hér með dætrum sínum, Anastasíu (13) og Edu (2), en þær þurftu að flýja stríðið yfir til Litháen. Ferðin þeirra tók yfir tvo daga og búa þær nú á svæði Barnaheilla þar sem þær fá föt og nauðsynjar.

Barnaheill - Save the Children á Íslandi hafa staðið að neyðarsöfnun fyrir börn og fjölskyldur þeirra í Úkraínu og nágrannalöndum. Söfnunin hefur gengið vel og söfnuðust 4,5 milljónir frá almenningi og fyrirtækjum. Með stuðningi utanríkisráðuneytisins bættu Barnaheill 3 milljónum króna við það sem safnaðist. Barnaheill – Save the Children á Íslandi hafa því sett 7,5 milljónir króna í Viðbragðssjóð Barnaheilla til stuðnings börnum og fjölskyldum þeirra í Úkraínu og nágrannalöndum.

Í Úkraínu eru 15,7 milljón manns sem þurfa á brýnni mannúðaraðstoð að halda. Barnaheill í Úkraínu hafa aðstoðað yfir 280 þúsund manns frá því í lok febrúar, þar af 150 þúsund börn. Rúmlega 62 þúsund manns hafa þegið fjárhagsstyrki frá samtökunum.

Barnaheill hafa undirritað 29 samstarfssamninga við önnur félagasamtök um víðfeðmt samstarf á vettvangi til að mæta þörfum fólks á flótta. Í neyðarskýlum Barnaheilla er nauðsynlegum birgðum dreift, heilbrigðisþjónusta veitt sem og vatn og hreinlætisvörur afhentar og fræðsluefni útbúið fyrir börn. Einnig hefur starfsfólk samtakanna haldið sálfræðinámskeið fyrir nýja björgunaraðila á vettvangi sem og þjálfun sérstaklega miðaða að börnum í neyð.

Barnaheill vinna einnig í nágrannaríkjum Úkraínu þar sem settar hafa verið upp móttökustöðvar fyrir flóttafólk. Þar má m.a. finna barnvæn svæði þar sem börn eiga tækifæri á að leika og læra í öruggu umhverfi og fá áfalla- og sálfræðiaðstoð frá þjálfuðu starfsfólki Barnaheilla.

Barnaheill þakka öllum kærlega fyrir þeirra fjárframlag í neyðarsöfnun Barnaheilla. 
Margt smátt gerir eitt stórt.