Barnaheill undirbúa þróunarverkefni í Úganda

Heimsókn í Ludel grunnskólann í Pader-héraði í Úganda.
Heimsókn í Ludel grunnskólann í Pader-héraði í Úganda.

Erna Reynisdóttir, framkvæmdastjóri Barnaheilla – Save the Children á Íslandi, og Guðrún Helga Jóhannsdóttir, verkefnisstjóri erlendra verkefna, eru staddar í Úganda á vegum samtakanna við undirbúning nýs þróunarverkefnis í samstarfi við landsskrifstofu Save the Children í Úganda. Þær Erna og Guðrún Helga hafa dvalið í borginni Gulu síðustu daga við öflun upplýsinga, meðal annars með viðtölum við skólayfirvöld, lögregluyfirvöld í barnavernd, sjálfboðaliða, foreldra, skólastjórnendur, nemendur og kennara í nokkrum skólum í héraðinu.

Barnaheill stóðu að þróunarverkefni í norðurhéruðunum Pader og Agago á árabilinu 2007–2015. Þær stöllur heimsóttu Ludel grunnskólann í Pader-héraði, sem er einn þeirra skóla sem Barnaheill studdu, og ræddu þar við kennara og foreldra. Stuðningur Barnaheilla fólst meðal annars í byggingu salernis og eldhúss sem er í fullri notkun og góðu ásigkomulagi. Mjög mikið og gott samstarf er á milli skóla og foreldra og samfélagsins í kringum skólann. Sem dæmi um það er að öll börnin í skólanum fá skólamáltíðir þar sem hluti hráefnisins kemur frá foreldrum, úr þeirra eigin ræktun. „Það er magnað að upplifa það að fjórum árum eftir lok verkefnisins virkar allt sem Barnaheill lögðu grunninn að og hefur skólinn augljóslega breyst til hins betra,“ sagði Erna.

En verkefnin eru ærin þar sem mikil fátækt ríkir á þessu svæði og þörf fyrir margvíslegan stuðning við samfélögin hvað varðar réttindi barna. Sem dæmi má nefna:

  • Líkamleg refsing er enn víða við lýði og þykir ásættanleg uppeldisaðferð hjá foreldrum, kennurum og nemendum.
  • Börnum er mismunað eftir efnahag foreldra þeirra hvað varðar skólamáltíðir.
  • Mikill skortur er á þekkingu á hvernig þjónusta eigi börn með sérþarfir.
  • Aðstaða til hreinlætis er víða bág, ekki síst fyrir unglingsstúlkur.

Samkvæmt viðtölum við starfsfólk menntamálayfirvalda í Gulu er gæðum menntunar ábótavant sem og tengslum milli heimilis og skóla. Skólaganga er að miklu leyti almenn en brottfall er samt sem áður enn um 30% hærra meðal stúlkna en drengja. Þá kom fram í viðræðum við lögreglu og sjálfboðaliða, sem starfa að vernd barna gegn ofbeldi, að mikið er um kynferðisofbeldi og annað ofbeldi, vanrækslu og að ungar stúlkur verði ófrískar, jafnvel eftir kennara og jafnvel giftar þeim.

Forsvarsfólk Save the Children í Úganda, sem var með í för, er gríðarlega ánægt með hversu sjálfbær verkefni Barnaheilla hafa reynst og segja Barnaheill hafa á vissan hátt verið frumkvöðlar um þjálfun í gerð og notkun margnota dömubinda og innleiðingu skólamáltíða. Þessi heimsókn sýnir svo ekki verður um villst hverju samtökin geta og hafa áorkað en einnig að enn er brýn þörf á stuðningi á mörgum sviðum.  Nýtt verkefni mun án efa byggjast á þeirri frábæru reynslu sem hlotist hefur af starfi Barnaheilla í Úganda og stuðla enn frekar að því að úgönsk börn á afskekktum svæðum hljóti gæðamenntun í öruggu og barnvænu samfélagi og séu meðvituð og upplýst um réttindi sín.

Hér fyrir neðan má sjá nokkrar myndir úr ferðinni.