Barnaheill undirrituðu samstarfssamning við mennta- og barnamálaráðuneytið

 Barnaheill hafa undirritað samstarfssamning við mennta- og barnamálaráðuneytið. Samningurinn er liður í aðgerðum stjórnvalda til að sporna gegn ofbeldi í þágu farsældar barna.

Markmið samningsins er að styðja við rekstur og starfsemi Barnaheilla í því að vinna að réttindum og velferð barna með Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna að leiðarljósi. Einkum er ætlað að styðja við verkefnin Verndarar barna og Vináttu – forvarnarverkefni gegn einelti.

Verndarar barna snýr að vitundarvakningu, fræðslu og forvörnum til verndar barna gegn ofbeldi. Verkefnið var fyrst sett á laggirnar árið 2006 á vegum samtakanna Blátt áfram, sem sameinaði krafta sína við Barnaheill árið 2019.

Vinátta er forvarnaverkefni Barnaheilla gegn einelti ætlað leikskólum, 1.–4. bekk grunnskóla, frístundaheimilum og dagforeldrum. Verkefnið felst í útgáfu námsefnis sem ætlað er börnum, foreldrum þeirra og starfsfólki sem og námskeiðum fyrir starfsfólk. Vináttu er ætlað að þjálfa félagsfærni og samskipti og stuðla að góðum skólabrag.
 
Barnaheill þakka stuðninginn og traustið sem felst í þessu samstarfi.